Tindastóll er í ansi vænlegri stöðu í Lengjudeild kvenna er fjórar umferðir eru eftir af deildinni eftir 2-0 sigur á ÍA í dag.
Þetta var sjöundi sigur Stólanna í röð en Lára Mist Baldursdóttir og Jacqueline Altschuld skoruðu mörk Tindastóls.
Tindastóll er með 37 stig á toppi deildarinnar, Keflavík er í öðru sætinu með 33 stig en Haukar eru í 3. sætinu með 26 en á þó leik til góða.
ÍA er í 8. sætinu með tólf stig.
Kórdrengir gerðu góða ferð norður og rúlluðu yfir Völsung á Húsavík, 6-0. Staðan var 3-0 í hálfleik en Kórdrengir eru með 40 stig á toppnum og eiga leik til góða.
Á Selfossi voru Þróttur úr Vogum í heimsókn og Vogamenn byrjuðu af krafti og komust í 4-0 í fyrri hálfleik. Selfyssingar klóruðu í bakkann en lokatölur 4-1.
Liðin eru nú jöfn í 2. og 3. sætinu með 37 stig.
Fjarðabyggð vann svo 3-1 sigur á Dalvík/Reyni. Fjarðabyggð er í 7. sætinu með 24 stig en Dalvík/Reynir í fallsæti, því ellefta, þremur stigum frá öruggu sæti.
Markaskorarar eru fengnir frá úrslit.net.