Viðskipti innlent

Óvissa um stöðu Novis sem tryggir fimm þúsund manns hér á landi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúmlega fimm þúsund manns búsett hér á landi eru í viðskiptum hjá Novis.
Rúmlega fimm þúsund manns búsett hér á landi eru í viðskiptum hjá Novis. Vísir/Vilhelm

Rúmlega fimm þúsund manns hér á landi ættu að velta fyrir sér tryggingamálum sínum eftir að Seðlabanki Slóvakíu lagði tímabundið bann við nýsölu vátryggingaafurða tryggingafélagsins Novis. Fjármálaeftirlitið bendir neytendum á að í ljósi bannsins sé óvissa um stöðu Novis. Hver og einn viðskiptavinur Novis verði, út frá sínum hagsmunum, að ákveða sjálfur hvort hann haldi áfram að greiða iðgjald eða ekki.

Greint er frá tíðindunum á heimasíðu Seðlabanka Íslands. Novis hóf sölu líftryggingaafurða á Íslandi í janúar 2018 og var fjöldi vátryggingartaka með virka samninga 5.201 við lok desember 2019.

NOVIS er líftryggingafélag, sem hóf starfsemi árið 2014 í Slóvakíu og lýtur eftirliti Seðlabanka Slóvakíu. Auk starfsemi í heimaríkinu, veitir Novis þjónustu í greinum líftrygginga gegnum útibú í Austurríki, Tékkandi og Þýskalandi og þjónustu án starfsstöðvar í Finnlandi, Ítalíu, Íslandi, Litháen, Póllandi, Svíþjóð og Ungverjalandi.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur áður komið á framfæri ábendingum og tilkynningum er varða afurðir félagsins og markaðssetningu, s.s. ábendingum til neytenda um atriði er varða fjárfestingatengdar vátryggingaafurðir, tímabundna stöðvun á nýsölu vátryggingaafurða í Ungverjalandi og stöðvun sölu á vátryggingaafurðinni Wealth Insuring á Íslandi.

Þá birti Fjármálaeftirlitið niðurstöður athugunar á viðskiptaháttum í tengslum við sölu á vátryggingarafurðum Novis.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur tekið þátt í samstarfsvettvangi eftirlitsstjórnvalda Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA), Seðlabanka Slóvakíu og annarra eftirlitsstjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu gegnum samstarfsvettvang eftirlitsstjórnvalda vegna NOVIS.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur tekið saman upplýsingar til íslenskra neytenda í ljósi tímabundins banns NBS. Þær má lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×