Viðskipti innlent

Kanna ákvarðanatöku lífeyrissjóða í tengslum við útboð Icelandair

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri reiknar með að nú fari að renna upp tími endurskipulagningar fyrirtækja hjá bönkunum.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri reiknar með að nú fari að renna upp tími endurskipulagningar fyrirtækja hjá bönkunum. Stöð 2/Sigurjón

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur hafið könnun á nýafstöðnu hlutafjárútboði Icelandair Group og ákvarðanatöku lífeyrissjóða í tengslum við það. Könnunin nær meðal annars til þeirra hagsmunaaðila sem skipa stjórnarmenn lífeyrissjóðanna, það er verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tilkynnti þetta á fundi fjármálastöðugleikanefndar í morgun þar sem verið var að kynna útgáfu rits Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem kom út í dag.

Sagði Ásgeir að lítið væri hægt að segja um áðurnefnda könnun, annað en það að hún væri farin af stað og að Fjármálaeftirlitið hafi, eftir atvikum, kallað eftir gögnum frá sjóðunum. Bætti Ásgeir þó því við að hann gæti ekki gefið upplýsingar um einstaka sjóði, og bað fréttamenn vinsamlegast um að spyrja ekki nánar út í þann tiltekna þátt.

Hætta á að eitthvað annað en hagsmunir sjóðsfélaga ráði för

Sagði hann að Fjármáleftirlitið teldi að útboðið sem slíkt og framvinda þess gæfi tilefni til umhugsunar um fyrirkomulag við ákvarðanatöku þegar kæmi að einstökum fjárfestingum lífeyrissjóðanna.

Vísaði hann til þess að þessar áhyggjur Fjármáleftirlitsins væru ekki nýtilkomnar en síðastliðið sumar sendi eftirlitið dreifibréf til lífeyrissjóða varðandi umboð stjórnarmanna, til þess að tryggja að sjálfstæði stjórna lífeyrissjóða verði ekki skert.

„Þetta bréf hefur verið ítrekað núna,“ sagði Ásgeir. „Að sjóðirnir endurskoði samþykktir sínar til að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna.“

Beðinn um að skýra orð sín nánar sagði Ásgeir að hann ætti við að eðlilegt væri að stjórnir ákveddu almenna fjárfestingastefnu lífeyrissjóðanna, en ættu ekki endilega að vera með puttanna í einstökum fjárfestingum.

„Staðan er þannig núna að við erum með stjórnir lífeyrissjóða sem eru skipaðar af hagsmunaaðilum sem eru að taka ákvarðanir um fjárfestingu, sem að mínu viti ættu að vera teknar annars staðar, en af þessum aðilumm“ sagði Ásgeir.

„Þegar kemur að einstökum fjárfestingakostum er ákveðin hætta fyrir því að aðrir hagsmunir en hagsmunir sjóðsfélaga fái að ráða.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×