Búið er að endurskoða fjögur þúsund sýni frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. 166 konur, sem eiga sýni af þessum fjögur þúsund, þurfa að koma í nýja sýnatöku. Alls stendur til að endurskoða sex þúsund sýni og er búist við að þeirri skoðun ljúki um miðjan október.
Sagt var frá því í fréttum Stöðvar 2 í lok ágúst að alvarleg mistök hafi verið gerð hjá Krabbameinsfélaginu við skoðun leghálssýnis og kona sem fékk rangar niðurstöður er nú með ólæknandi krabbamein sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir.
Sýni hennar frá 2018 var endurskoðað og komu greinilegar frumubreytingar á því.
Fljótt kom í ljós að minnst 30 konur hefðu fengið rangar niðurstöður um frumubreytingar í leghálsskoðun árið 2018 og að unnið væri að því að endurskoða um sex þúsund sýni.
Krabbameinsfélagið mun birta uppfærðar tölur um endurtalningu sýnanna vikulega, hvern fimmtudag, þar til endurskoðun er lokið. Miðað við síðustu tölur þá virðist hlutfall þeirra sem þurfa í nýja sýnatöku fara minnkandi.
Nokkrar þeirra kvenna sem fengu rangar niðurstöður hafa þurft að fara í keiluskurð vegna alvarlegra frumubreytinga.