Skoðun

Þetta stendur í Sam­göngu­sátt­málanum

Kolbrún Baldursdóttir skrifar

Umbyltingar í Breiðholti eru ekki í þágu allra. Ég hef búið í Breiðholti í 20 ár og starfað þar í 10 ár. Nú liggja fyrir hugmyndir að endurnýjuðu hverfisskipulagi fyrir Breiðholt. Samkvæmt hugmyndunum má byggja 3000 nýjar íbúðir, mest blokkir og einnig verður veitt leyfi til að byggja ofan á sumar blokkir. Með mörgum nýjum íbúðum ef ekki flestum fylgja engin bílastæði. Byggt verður á sumum almenningsbílastæðum sem fyrir eru.

Vissulega er margt sem er tímabært að gera fyrir Breiðholtið en ganga þarf varlega í að þétta byggð til að ekki verði gengið á græn svæði eða þrengt svo mikið að íbúum að þeir geta ekki fengið til sín gest sem kemur akandi. Ég hef spurt hvort ekki væri nær að auka atvinnuhúsnæði í Breiðholti til að jafna hlutfall íbúa og atvinnutækifæra. Sem dæmi mætti færa fyrirtæki og jafnvel einhverja skóla upp í Breiðholt. Slík uppbygging gæti létt á helstu umferðarteppum borgarinnar.

Breiðhyltingar verða að fylgjast vel með hvað skipulagsyfirvöld eru að fara að gera. Þau státa sig á af því að vera græn og umhverfisvæn en engu að síður ætla þau að eyðileggja útivistarsvæðið í Vatnsendahvarfi. Í hverfisskipulaginu er kynnt hugmynd að Vetrargarði sem byggja á í kringum skíðalyftuna í Jafnaseli. Þar nokkrum metrum ofar er fyrirhugað að leggja breiðan veg sem mun kljúfa Vatnsendahvarf (fyrirhugaðan Arnarnesveg). Vatnsendahvarfið er útivistarsvæði á einum besta útsýnisstað borgarinnar. Þangað leggja fjölmargir leið sína á hverjum degi. Ekki er þörf á að setja þennan veg þarna. Hægt er að fara aðra leið til að greiða fyrir akstri úr Kópavogi yfir á Breiðholtsbraut. Vinir Vatnsendahvarfs hafa bent á áhugaverðar og góðar lausnir, en á þá er ekki hlustað. Viðbrögð skipulags- og samgönguráðs við fyrirspurnum og tillögum Flokks fólksins við öðrum útfærslum eru: ,,Þetta stendur í samgöngusáttmálanum".

Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×