Innlent

Segir ákvörðunina fyrir­sjáan­lega en rök­rétta

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands.
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands. Vísir/Baldur

„Þetta var frekar fyrirsjáanleg ákvörðun, fannst mér,“ sagði Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, þegar fréttamaður spurðist fyrir um viðbrögð hennar við ákvörðun stjórnar Samtaka atvinnulífsins um að áfram yrði staðið við lífskjarasamninginn. Atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna SA um uppsögn kjarasamninga fór því ekki fram í dag.

„Það kom mér reyndar á óvart að þau hafi slegið af atkvæðagreiðsluna en ég taldi það frekar víst að atvinnurekendur sæju hag sinn í því að láta samningana standa, og þar með frið á vinnumarkaði,“ sagði Drífa í samtali við fréttastofu í kvöld.

Hún bætti við að aðila á vinnumarkaði biðu stærri vandamál en þau sem leyst verði með kjarasamningum. Vandamálin væru í raun óháð kjarasamningum.

Aðspurð hvort hún væri ánægð með ákvörðun SA sagðist Drífa telja hana rökrétta.

Í tilkynningu sem SA gaf út fyrr í dag, hvar greint var frá ákvörðuninni um að blása atkvæðagreiðsluna af, sagði meðal annars að sættir á vinnumarkaði verði ekki „keyptar á hvaða verði sem er,“ þó mikilvægar séu.

Verkalýðsforystan hafi ekki verið tilbúin til viðræðna um aðgerðir til að bregðast við forsendubresti sem SA telur hafa orðið í atvinnulífinu vegna faraldurs kórónuveiru og því hafi SA leitað til stjórnvalda, sem í dag tilkynntu um tímabundna lækkun tryggingagjalds.

„SA vildi náttúrulega fara inn í þessar viðræður á þeim forsendum að skerða réttindi eða lækka laun. Það voru bara forsendur sem við tókum ekki gildar,“ segir Drífa um þessar fullyrðingar sem fram komu í tilkynningu SA.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×