Fjárheimild til embættis forseta Íslands er aukin tímabundið í eitt ár um 12,5 milljónir þar sem skipta á um forsetaritara.
Þetta kemur fram í greinargerð með fjárlagafrumvarpi ársins 2021 sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti á blaðamannafundi í fjármálaráðuneytinu í morgun.
Örnólfur Thorsson, forsetaritari, mun því láta af störfum á næsta ári en hann hefur starfað hjá embættinu síðan árið 2000 og verið forsetaritari frá árinu 2005.
Heildarfjárheimild til forsetans verður 345 milljónir króna og lækkar frá gildandi fjárlögum um 25,9 milljónir króna, að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum sem nema 7,7 milljónum króna.
Helstu breytingarnar sem gerðar er á fjárheimildum embættisins eru, að frátöldum kostnaði vegna þess að skipta á um forsetaritara, snúa að fjárframlögum vegna tímabundinna fjárfestingar- og viðhaldsáfanga sem er að mestu lokið.
Sú upphæð, alls 32 milljónir króna er færð undir forsætisráðuneytið en þar segir:
„Fjárheimild málaflokksins er aukin um 32 m.kr. til brýnna fjárfestingarverkefna og endurbóta á fasteignum í umsjá forsætisráðuneytis. Um er að ræða tilfærslu af málaflokki 3.1 Embætti forseta Íslands vegna tímabundinna viðhaldsverkefna hjá embættinu.“
Þá nemur hlutdeild embættis forseta Íslands í veltutengdri aðhaldskröfu hjá æðstu stjórnsýslu 6,4 milljónir króna eða 2%.
Allt það helsta um fjárlagafrumvarpið 2021 má finna í Vaktinni á Vísi.