Erlent

Donald Trump fluttur á sjúkrahús

Sylvía Hall skrifar
Trump er ekki sáttur við frétt New York Times og segir hana falska.
Trump er ekki sáttur við frétt New York Times og segir hana falska. AP/Carolyn Kaster

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið fluttur á sjúkrahús. Greint var frá því í dag að forsetinn hefði greinst með kórónuveirusmit, sem og eiginkona hans Melania Trump.

Forsetinn er sagður hafa fundið fyrir „vægum einkennum“, en hann og Melania hafa verið í einangrun frá því í gærkvöld. Hann er nú á Walter Reed-hersjúkrahúsinu en forsetinn var fluttur þangað með þyrlu. 

Á vef breska ríkisútvarpsins segir að forsetinn hafi fengið „lyfjakokteil“ til þess að sporna gegn frekari einkennum. Hann fyndi fyrir þreytu en væri annars hress.

Talsmaður Hvíta hússins segir einkenni forsetans ekki vera orðin alvarleg. Hann sé enn hress og hafi unnið í dag. Flutningur hans á sjúkrahús hafi einungis verið varúðarráðstöfun.

„Af varúðarástæðum og eftir meðmæli frá lækni hans og heilbrigðissérfræðingum mun forsetinn vinna frá forsetaskrifstofunum á Walter Reed næstu daga,“ sagði í yfirlýsingu talsmannsins.

Forsetinn sendi frá sér myndband í kvöld varðandi innlögnina. Þar sagðist forsetinn þakklátur fyrir batakveðjurnar og stuðninginn sem þau hjónin hefðu fengið eftir greininguna.


Tengdar fréttir

Vissu af smitinu en fóru samt að hitta fólk

Hvíta húsið vissi af því að einn nánasti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseti væri smitaður af kórónuveirunni á miðvikudagskvöld en forsetinn og aðrir sem voru útsettir fyrir smiti héldu samt áfram að vera á meðal fólks. Trump og eiginkona hans greindust bæði smituð í gærkvöldi.

Hvað gerist ef Trump verður veikur?

Donald Trump Bandaríkjaforseti er smitaður af Covid-19 og verði hann veikur gæti það haft mikil áhrif á bæði baráttu hans til að ná endurkjöri og stjórn Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×