Skoðun

Reynum ekki að kæfa um­ræðuna – svörum heldur skil­merki­lega

Haraldur Ólafsson skrifar

Nokkrir hafa viðrað þá skoðun að best sé að eftirláta sérfræðingum umræðu um viðbrögð við veirufaraldrinum sem nú geisar, þar á meðal starfsbróðir og félagi undirritaðs, Magnús Karl Magnússon í Vísi 11. mars sl.

Þegar beitt er rökum af því tagi að sérfræðingarnir viti best hringja viðvörunarbjöllur. Þær hringja því hærra sem orðið sérfræðingur kemur oftar fyrir. Það er nefnilega siður að grípa í það hálmstrá þegar efnisrök þrýtur og ljóst er orðið að veifað sé röngu tré.

Hvað veiruumræðuna núna varðar eru uppi ýmsar áleitnar spurningar sem verða ekki tíundaðar í smáatriðum hér, en þær lúta m.a. að því að stundum virðist vera misræmi milli mats heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og erlendra sérfræðinga, á t.d. smithættu. Þá hafa heilbrigðisyfirvöld á Íslandi viljað ganga stutt í þá átt að skera á hugsanlegar smitleiðir, að sumu leyti styttra en í nágrannalöndunum, svo ekki sé talað um fjarlægari lönd á borð við Kína þar sem tekið var á málinu af festu með þeim árangri að útbreiðslan hefur verið stöðvuð og ekkert bólar á bakslagi. Gríðarfjölmennar sveitir á borð við Sjanghæ sluppu nánast algerlega. Eðlilega hljóta margir að spyrja hvers vegna sé ekki fylgt fordæmi þeirra sem bestum árangri hafa náð.

Það er hlutverk sérfræðinga, ekki síst háskólamanna, að bregðast við ígrunduðum spurningum upplýstrar alþýðu með skýrum svörum, en ekki með því að biðja fólk að þegja vegna þess að það sé ekki sérfræðingar.

“Það er hlutverk sérfræðinga, ekki síst háskólamanna, að bregðast við ígrunduðum spurningum upplýstrar alþýðu með skýrum svörum, en ekki með því að biðja fólk að þegja vegna þess að það sé ekki sérfræðingar.”

Höfundur er prófessor í raunvísindadeild Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×