Slökkvistarfi á vettvangi brunans við Skemmuveg í Kópavogi er nú að mestu lokið og teymi sem sinnu útkallinu hafa nú ýmist lokið vakt eða snúið til annarra verkefna.
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út vegna elds í verkstæði við Skemmuveg í Kópavogi. Hefur mikill svartur reykur stígið upp frá vettvangi sem sást víða á höfuðborgarsvæðinu. Mikill eldur var í húsnæðinu. Útkallið barst klukkan 14:12 en um 25 mínútum síðar hafði slökkviliði náð tökum á eldinum.
Einn dælubíll var enn á vettvangi samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu um klukkan fjögur í dag.
Fjórar stöðvar voru sendar á vettvang sem nú hafa flestar verið kallaðar til baka. Unnið er að því að tryggja vettvang áður en hann verður afhentur lögreglu. Slökkviliðið lenti í nokkrum vandræðum vegna mikillar umferðar við vettvang og var fólk beðið um að halda sig fjarri.
Fréttastofu hafa borist myndir frá lesendum sem hafa orðið varir við brunann frá ýmsum sjónarhornum í borginni.
Fréttin var uppfærð kl. 16:15.





