Innlent

Fólk farið að spyrja um veðrið um páskana

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nokkrir stólar eru nú þegar komnir á nýju stólalyftuna í Hlíðarfjalli.
Nokkrir stólar eru nú þegar komnir á nýju stólalyftuna í Hlíðarfjalli. Vísir/Tryggvi

Það styttist í að nýja stólalyftan verði tekin í gagnið í Hlíðarfjalli á Akureyri eftir langa mæðu. Framkvæmdir eru á lokametrunum.

Það eru að verða tvö ár síðan lyftan átti uphaflega að vera tekin í notkun, þarsíðasta vetur. Síðasti vetur var afar snjóþungur og ekki hjálpaði kórónuveiran til, því frestaðist opnunin enn frekar. En nú er allt að smella.

„Ég held að það sé óhætt að lofa því núna. Þetta er að bresta á og við erum algjörlega á lokametrunum,“ segir Stefán Gunnarsson, svæðisstjóri í Hlíðarfjalli.

Verið er að leggja lokahönd á rafmagnsvinnu og erlendir sérfræðingar eiga síðan eftir að taka lyftuna út.

„Það þarf að taka út alla öryggisþætti, bremsubúnað og svoleiðis. Síðan verða stólarnir bara hengdir á og þá á hún að vera tilbúin til afhendingar,“ segir Stefán.

Lyftan færir skíðakappa upp í eitt þúsund metra hæð yfir sjávarmál á um átta mínútum.

„Hún opnar efri hlutann á svæðinu fyrir fleiri gesti. Þetta stækkar svæðið töluvert, við getum gert og erum að gera nýjar skíðaleiðir,“ segir Stefán.

Viðbúið er að skíðaþyrstir Íslendingar hrannist í Hlíðarfjall í vetur, þar sem ólíklegt er að skíðaferðir erlendis standi til boða.

„Já, fólk er farið að spyrja okkur um veðrið um páskana og þessar hefðbundnu spurningar sem að koma alltaf á haustin. Ég get ekki séð annað en að fólk sé bara spennt að koma að skíða.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×