Erlent

Koma á hæsta viðbúnaðarstigi í París

Kjartan Kjartansson skrifar
Enn verður hægt að heimsækja veitingahús í París en gestir þurfa að skilja eftir upplýsingar um hvernig er hægt að ná í þá.
Enn verður hægt að heimsækja veitingahús í París en gestir þurfa að skilja eftir upplýsingar um hvernig er hægt að ná í þá. Vísir/EPA

Öll börum, líkamsræktarstöðvum og sundlaugum verður lokað í París á morgun þegar hæsta viðbúnaðarstig vegna kórónuveirufaraldursins tekur gildi. Smituðum hefur fjölgað töluvert undanfarna daga. Veitingahús verða áfram opin en með auknum smitvörnum.

Rúmlega 12.500 manns greindust smitaðir af kórónuveirunni í Frakklandi í gær. Rúmlega 200 hópsýkingar hafa komið upp í höfuðstaðnum París.

Franska ríkisstjórnin ákvað að setja París á hæsta viðbúnaðarstig sem þýðir að hlutfall nýsmita er meira en 250 á 100.000 íbúa og 30% rýma á gjörgæsludeildum eru undirlögð fyrir kórónuveirusjúklinga.

„Við verðum að hægja á þessu svo að það þyrmi ekki yfir heilbrigðiskerfið okkar,“ sagði Didier Lallement, lögreglustjórinn í París á blaðamannafundi í dag.

Takmarkanirnar gilda í tvær vikur, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Ekki þarf að loka veitingastöðum svo lengi sem staðirnir halda utan um upplýsingar um hvernig sé hægt að ná í viðskiptavini og loki klukkan 22:00 á kvöldin. 

Borgarbúar eru hvattir til að vinna heima eftir fremsta megni og skólastofur háskóla mega aðeins vera hálffullar með nýju reglunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×