Erlent

Hægt verði að meina dæmdum of­beldis­mönnum að stunda nætur­lífið

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, kynnti tillögur ríkisstjórnar sinnar í morgun.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, kynnti tillögur ríkisstjórnar sinnar í morgun. Gettty

Ríkisstjórn Danmerkur kynnti í dag tillögur sem ætlað er að fækka glæpum í landinu. Ein tillagnanna gengur út á að yfirvöldum verði gert kleift að koma á útgöngubanni fyrir dæmda ofbeldismenn, þannig að þeim sé meinað að stunda næturlífið í allt að tvö ár.

„Það er ekki eðlilegt að ungir menn, sem ráðist hefur verið á á barnum einhverja helgi, hitti árásarmanninn aftur þremur vikum síðar,“ sagði forsætisráðherrann Mette Frederiksen á þinginu í morgun.

Í frétt DR segir að önnur tillaga dönsku ríkisstjórnarinnar gengur út á að lögreglu verði heimilt að banna samkomur á ákveðnum stöðum tímabundið. Sé hugsunin að skapa öryggi í hverfum þar sem mörg ungmenni, sem hlotið hafa dóm, búa og verja sínum tíma.

„Það getur verið bílastæði í hverfi eða við lestarstöð þar sem þessir drengir og ungu karlmenn koma saman og skapa óöryggi,“ sagði Frederiksen. Forsætisráðherrann bætti því einnig við að hlutfallslega margir ungra, sem hlotið hafa dóm, séu með uppruna frá ríkum utan Vesturlanda.

10 þúsund danskar eða 30 daga fangelsi

Lagt er til að sektarupphæðin við að gerast brotlegur við reglurnar verði 10 þúsund danskar krónur, um 220 þúsund íslenskar á núverandi gengi, eða þá þrjátíu daga fangelsi.

Ríkisstjórnin vill einnig eiga möguleikann á að útiloka dæmda einstaklinga frá næturlífi. „Við leggjum til að einstaklingar sem gerast sekir um líkamsárásir verði einnig dæmdir til að mega ekki stunda næturlíf í allt að tvö ár,“ sagði Frederiksen. Íbúar eigi að vera öryggir, hvort sem um ræðir á diskótekum, íbúðarhverfum eða á lestarstöðvum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×