Innlent

Gerðu alls ekki ráð fyrir svo mörgum smitum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sem fer fyrir teyminu við HÍ sem vinnur spálíkan um líklega þróun Covid-19 á Íslandi.
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sem fer fyrir teyminu við HÍ sem vinnur spálíkan um líklega þróun Covid-19 á Íslandi. Vísir/Stöð 2

Thor Aspelund prófessor í líftölfræði segir að teymið sem haldið hefur úti spálíkani um þróun kórónuveirufaraldursins hér á landi hafi alls ekki gert ráð fyrir þeim mikla fjölda sem greindist með veiruna í gær.

„Við gerðum alls ekki ráð fyrir þessu og þetta kemur mér á óvart,“ sagði Thor í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld.

„Við setjum fram spálíkan þegar við gerum ráð fyrir að faraldurinn sé kominn í stjórn og smitstuðullinn sé á leið niður og þar af leiðandi muni það leiða af sér að faraldurinn rénar. En það var bara ekki þannig,“

Thor sagði jafnframt að miðað við fyrstu bylgju faraldursins í vor mætti áfram búast við háum tölum innan nokkurra daga. Þetta væri auðvitað áhyggjuefni, einkum með tilliti til stöðunnar á Landspítalanum. Þá sagði hann að hertu aðgerðirnar sem boðaðar hafa verið frá og með deginum á morgun muni skila sér í lægri tölum eftir um tíu daga til tvær vikur.

99 greindust með veiruna síðasta sólarhringinn en aðeins einu sinni áður hafa fleiri greinst á einum sólarhring frá því faraldurinn hófst snemma árs.

Jóhanna Jakobsdóttir, rannsóknarsérfræðingur við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands sem unnið hefur að spálíkaninu ásamt Thor og fleiri vísindamönnum, hefur viðrað áhyggjur sínar af stöðu mála undanfarna daga.

Hún sagði í Facebook-færslu í dag að hún teldi að eins metra reglan, sem sett var á í september, hafi í raun orðið að eins sentímetra reglu í meðförum fólks. Ótímabært hafi verið að rýmka á fjarlægðartakmörkunum á meðan smit voru enn að greinast innanlands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×