Sport

Wijnaldum segir að Barcelona hafi ekki haft alvöru áhuga á honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Georginio Wijnaldum ræðir málin á blaðamannafundi fyrir landsleik Hollands og Mexíkó.
Georginio Wijnaldum ræðir málin á blaðamannafundi fyrir landsleik Hollands og Mexíkó. EPA-EFE/KOEN VAN WEEL

Georginio Wijnaldum segist vera leikmaður Liverpool og hann ætli að klára sinn samning við félagið. Hann fékk spurningar um framtíð sína á blaðamannafundi með hollenska landsliðinu.

Framtíð Georginio Wijnaldum hjá Liverpool var í uppnámi í haust þegar ekkert bólaði á nýjum samningi hollenska miðjumannsins við ensku meistarana.

Á sama tíma og Georginio Wijnaldum skrifaði ekki undir nýjan samning þá keypti Liverpool Thiago Alcantara frá Bayern München. Wijnaldum var orðaður við Barcelona þegar hollenski landsliðsþjálfarinn Ronald Koeman tók við á Nývangi í sumar.

Georginio Wijnaldum er nú kominn til móts við hollenska landsliðið og ræddi þar aðeins framtíð sína.

„Eins og ég lít á þetta núna þá verð ég áfram í Liverpool. Samningurinn minn rennur ekki út fyrr en eftir tíu mánuði. Það getur samt breyst því þú veist aldrei hvað gerist í fótboltanum,“ sagði Georginio Wijnaldum á blaðamannafundi með hollenska landsliðinu.

Hann var líka spurður út í áhuga Barcelona. „Ég held að þeir hafi ekki haft alvöru áhuga. Annars hefði verið skrifað meira um það eða að eitthvað meira hefði gerst,“ sagði Wijnaldum.

Liverpool keypti Georginio Wijnaldum frá Newcastle fyrir 25 milljón pund i júlí 2016 og hann hefur síðan verið í miklui uppáhaldi hjá knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp.

Jürgen Klopp sagði í sumar að allt væri í góðu milli hans og Georginio Wijnaldum. Þýski stjórinns sýndi það og sannaði með því að vera með Georginio Wijnaldum í byrjunarliðinu í fjórum fyrstu deildarleikjum tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×