Fótbolti

Sverrir Ingi mátti ekki æfa með íslenska liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverrir Ingi Ingason í baráttu við Harry Kane í leiknum á móti Englandi í september.
Sverrir Ingi Ingason í baráttu við Harry Kane í leiknum á móti Englandi í september. Vísir/Hulda Margrét

Sverrir Ingi Ingason, miðvörður íslenska landsliðsins, fékk ekki leyfi til að æfa með íslenska landsliðinu í gær.

Erik Hamrén, þjálfari íslenska landsliðsins, sagði frá því á blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Rúmeníu að það var einn leikmaður sem gat ekki æft með íslenska liðinu.

Sverrir Ingi Ingason var nefnilega ekki búinn að fá niðurstöður úr kórónuveiruprófi og mátti því ekki koma til móts við aðra leikmenn liðsins í gær.

Sverrir Ingi var að koma frá Grikklandi þar sem hann spilar með PAOK liðinu. Sverrir Ingi var í byrjunarliði Íslands á móti Englandi í síðasta landsleikjaglugga en missti af seinni leiknum eftir að hafa fengið rautt spjald undir lok leiksins.

Tíu leikmenn æfðu með íslenska landsliðinu á mánudag en 23 voru á æfingunni í gær. Kári Árnason gat tekið þátt í báðum æfingunum.

„Þetta hefur gengið vel. Leikmenn eru einbeittir og það er líka mikil gleði í hópnum. Við þurfum jákvæða orku og ég hef verið mjög ánægður með æfingar hingað til," sagði Erik Hamrén.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×