Tuttugu liggja nú á Landspítalanum með Covid-19 en áttatíu og sjö greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Smitsjúkdómalæknir segir meiri hættu á því í þessari bylgju en þeirri fyrri að veiran nái til viðkvæmari hópa vegna þess hvað hún sé víða í samfélaginu.
Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítalanum segir stöðuna á spítalanum stöðugt vera að þyngjast.

„Í morgun vorum við með átján sjúklinga inni en mér er kunnugt um að tveir hafi verið lagðir inn síðan og hingað til. Þannig að við erum með tuttugu manns. Það eru fjórir á gjörgæslu og vaxandi fjöldi á göngudeildinni," sagði Már nú síðdegis.
Staðan sé því að þyngjast á öllum vígstöðvum. Miðað við þann fjölda sem hafi verið að greinast daglega undanfarna viku megi búast við fjölgun næstu tvær vikurnar að minnsta kosti. En það geti tekið allt að viku frá því fólk veikist þar til það sé komið inn á spítala.
„Meðalaldurinn í þessum hópi í samfélaginu núna er klárlega lægri," segir Már. Aldursdreifingin sé hins vegar dreifðari en áður þannig að fólk á áttræðis, níræðis og jafnvel tíðræðis aldri séu einnig að veikjast.
„Af því þetta er víðar í samfélaginu er meiri hætta á að þetta komist inn í miklu viðkvæmari hópa. Eins og við eru að sjá til dæmis á öldrunarstofnunum og öldrunardeildum. Þannig að það er mikil áskorun fyrir okkur. Við reynum kannski að glíma svolítið öðru vísi við faraldurinn en áður til að koma í veg fyrir þetta," segir Már.
Það hafi ekki tekist að efla einstaklinga á baráttunni nú eins vel og tekist hafi í vor. En vonandi færi hertari aðgerði fólki heim sanninn um alvarleika málsins. Hann voni að álagið verði ekki meira en í bylgjunni í vor. Margt hafi verið straumlínulagað í störfum sjúkrahússins síðan þá.
„Þar á ég bæði við nálgunina gagnvart einstaklingunum. Þannig að við erum að verða grimmari í að meðhöndla þá til að forða innlögnum. Vonandi skilar það sér í betri horfum fyrir fólk og hlutfallslega færri sjúkrahúss innlögnum," segir Már Kristjánsson.