Níutíu og fjórir greindust með kórónuveiruna innlands í gær. Fjörutíu þeirra voru í sóttkví. Þá greindust átta við landamærin. Tuttugu og þrír liggja nú á Landspítalanum með kórónuveiruna.
Nú eru 4.345 í sóttkví og fjölgar um þrjú hundruð á milli daga. Þá eru 846 á landinu öllu í einangrun með veiruna.
Þrír liggja á gjörgæsludeild Landspítalans með Covid-19 að sögn Önnu Sigrúnar Baldursdóttur aðstoðarmanns Páls Matthíassonar forstjóra Landspítalans. Öll þrjú séu í öndunarvél. Hún segir álagið á spítalanum vegna veirunnar hafa aukist mikið síðustu daga.
Nýgengi innanlandssmita, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 198,8 en var 182,2 í gær. Þá er nýgengi landamærasmita nú 7,4 líkt og í gær.