Kamala Harris, varaforsetaefni demókrata, og Hillary Clinton, fyrrverandi mótframbjóðandi hans, fengu á baukinn hjá Donald Trump Bandaríkjaforseta í klukkutímalöngu símaviðtali á Fox-sjónvarpstöðinni í dag. Þar kallaði forsetinn eftir því að leiðtogar demókratar yrðu sóttir til saka óljósa glæpi.
Trump, sem er nú í sóttkví í Hvíta húsinu eftir að hann greindist smitaður af Covid-19 í síðustu viku, hringdi inn í þátt Mariu Bartiromo á Fox News í morgun. Þar helti forsetinn úr skálum reiði sinnar og tilkynnti að hann ætlaði ekki að taka þátt í sjónvarpskappræðum við Joe Biden, frambjóðanda demókrata, í næstu viku vegna þess að þær ættu að fara fram í fjarfundi. Lýsti hann kappræðunum sem „tímasóun“.
Í tvígang lýsti forsetinn Harris, sem atti kappi við Mike Pence varaforseta í kappræðum í gærkvöldi, sem „skrímsli“ og í fjórgang sem „kommúnista“ sem engum gæti líkað við.
Þá ávítti hann Mike Pompeo, utanríkisráðherra, og William Barr, dómsmálaráðherra, sem eru báðir taldir einhverjir húsbóndahollustu ráðgjafar forsetans fyrir að hafa ekki gengið harðar fram gegn pólitískum andstæðingum sínum.
„Bill Barr verður annað hvort minnst sem besta dómsmálaráðherra í sögu landsins eða hans verður minnst sem mjög dapurlegrar, dapurlegrar stöðu,“ sagði Trump um dómsmálaráðherrann sem hann vill að sæki Barack Obama, Joe Biden og Hillary Clinton til saka vegna rannsóknar alríkislögreglunnar FBI á tengslum forsetaframboðs hans við Rússa árið 2016.
Vildi forsetinn að Pompeo birti gögn úr utanríkisráðuneytinu um Clinton sem var utanríkisráðherra í fyrri ríkisstjórn Obama.
„Þau eru í utanríkisráðuneytinu en Mike Pompeo hefur ekki tekist að ná þeim út, sem er í raun mjög dapurlegt. Ég er ekki ánægður með hann af þeirri ástæðu,“ sagði Trump við Bartiromo.
Christopher Wray, forstjóri alríkislögreglunnar sem Trump skipaði sjálfur, slapp ekki við reiði forsetans. Hann er Wray reiður fyrir að styðja ekki stoðlausar ásakanir sínar um að stórfelld kosningasvik verði viðhöfð í forsetakosningunum í næsta mánuði. Vildi Trump ekki staðfesta að Wray yrði áfram í embætti næði hann endurkjöri.
Telur sig „alls ekkert“ smitandi
Trump gerði afar lítið úr veikindum sínum í viðtalinu og gaf misvísandi upplýsingar um meðferðina sem hann hefur fengið. Þannig lýsti hann dexamethasone, sterkum sterum sem hann hefur fengið, sem „ekki sterkum sterum“. Hann sé nú „varla á nokkrum lyfjum“.
„Ég held að ég sé alls ekkert smitandi,“ sagði Trump án nokkurs rökstuðnings en hann greindist smitaður af kórónuveirunni fyrir innan við viku.
AP-fréttastofan segir að Trump hafi enn verið smitandi þegar hann var útskrifaður af Walter Reed-hersjúkrahúsinu á mánudag. Læknar forsetans hafa ekki veitt neinar nákvæmar upplýsingar um heilsu hans síðan þá.
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) segir að Covid-19-sjúklingar með mild eða hófleg einkenni geti verið smitandi í allt að tíu daga og ættu að halda sig í einangrun á meðan.
Til stóð að halda kappræðurnar á milli Trump og Biden á föstudag í næstu viku. Þá hefðu verið liðnar rétt um tvær vikur frá því að Trump smitaðist. Kosningastjóri hans sakaði nefndina sem skipuleggur kappræðurnar um að „halda hlífiskildi“ yfir Biden með því að hætta við að halda þær í persónu. Þess í stað ætlar framboðið að halda kosningafund með stuðningsmönnum forsetans.