Innlent

Börn í Réttó send í skólann með and­lits­grímur

Atli Ísleifsson skrifar
Réttarholtsskóli er þannig eini grunnskóli Reykjavíkur sem ákveðið hefur að ganga lengra en reglur borgarinnar og sóttvarnayfirvalda segja til um.
Réttarholtsskóli er þannig eini grunnskóli Reykjavíkur sem ákveðið hefur að ganga lengra en reglur borgarinnar og sóttvarnayfirvalda segja til um. Vísir/Vilhelm

Stjórnendur Réttarholtsskóla hafa beðið foreldra að senda börn sín með andlitsgrímur í skólann. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag og er vísað til bréfs sem sent var til foreldra og forráðamanna í gær.

Réttarholtsskóli er, eftir því sem fréttastofa kemst næst, þannig eini grunnskóli Reykjavíkur sem ákveðið hefur að ganga lengra en reglur borgarinnar og sóttvarnayfirvalda segja til um. Í bréfinu til foreldra segir að þeir sem ekki eigi grímur geti fengið þær í skólanum.

Þá segir í blaðinu að flestir kennarar og starfsfólk muni ganga með grímur og þar að auki verði skólinn loftræstur vel. Þetta sé áhrifarík leið til að draga úr smithættu og minnka hættuna á að skólastarfið raskist.

Í bréfinu er vísað til þess að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælist til þess að tólf ára börn og eldri séu meðhöndluð eins og fullorðnir. Ekki sé þó um eiginlega grímuskyldu að ræða og að nemendum verði ekki vísað heim án grímu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×