Innlent

Yfir­völd í Ischgl hundsuðu við­varanir ís­lenskra yfir­valda

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Talið er að skíðafólk hafi smitast af kórónuveirunni í austurríska bænum Ischgl þegar í febrúar og borið hana með sér víða um lönd.
Talið er að skíðafólk hafi smitast af kórónuveirunni í austurríska bænum Ischgl þegar í febrúar og borið hana með sér víða um lönd. Vísir/EPA

Stjórnvöld í austurríska héraðinu Tíról virðast hafa hundsað viðvaranir um útbreiðslu kórónuveirunnar á skíðasvæðinu Ischgl sem bárust þeim frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. Talið er að sextán Íslendingar hafi smitast af veirunni í bænum í upphafi faraldursins.

Samskipti og fundargerðir eru sagðar gefa til kynna að yfirvöld í Tíról hafi gert lítið úr útbreiðslu veirunnar á svæðinu í þeirri von um að vernda orðspor Ischgl. Þetta kemur fram í frétt AFP sem hefur gögnin undir höndum og mbl.is greinir frá.

Þúsundir blaðsíðna af gögnum um útbreiðsluna á svæðinu hafa verið skoðaðar af fréttamönnum AFP og eru þar á meðal tölvupóstsamskipti, skilaboð og fundargögn. Í fundargerð neyðarfundar heilbrigðisyfirvalda í Tíról eftir að smit greindist hjá barþjóni Kitsloch þann 7. mars er vitnað í Anítu Luckner-Hornischer embættismann, sem segir: „Við megum líklega vænta margra smita sem tengjast barnum.“

Í fréttatilkynningu sem yfirvöld í Tíról sendu frá sér nokkrum klukkustundum síðar er allt annað hljóð. Þar segir að ólíklegt þyki, frá læknisfræðilegu sjónarhorni, að gestir barsins hafi smitast, og er þar haft eftir hinum sama embættismanni og taldi líklegt að gestir barsins myndu smitast, henni Luckner-Hornischer.

Hlustuðu frekar á íslenska ferðamenn en heilbrigðisyfirvöld

Tveir Íslendingar sem dvalið höfðu í Ischgl lýstu því yfir, eftir að þeir greindust með veiruna, að þeir teldu sig mögulega hafa smitast í flugvélinni á leið heim. Fram kemur í gögnum AFP að yfirvöld í Ischgl hafi frekar tekið mark á frásögn íslensku ferðamannanna tveggja en aðvörunum íslenskra heilbrigðisyfirvalda.

Gögn sem renna stoðum undir það er tölvupóstur sem sendur var af héraðsstjóranum Markus Maass til embættismanns í Tíról þar sem hann segir mikilvægt að efasemdir ferðamannanna um uppruna smitsins komi fram. Með því væri hægt að koma Ischgl „úr eldlínunni.“

Þá var fréttatilkynning frá Tíról um málið titluð: „Íslenskir gestir í Tíról smituðust líklega af kórónuveirunni í flugi á leið sinni heim.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×