Innlent

Gekk um mið­bæinn og skrifaði á hús með túss­penna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Miðbærinn. Þar gekk maður um og tússaði á hús eitt og logandi flöskum var kastað í annað.
Miðbærinn. Þar gekk maður um og tússaði á hús eitt og logandi flöskum var kastað í annað. Vísir/Vilhelm

Rétt upp úr klukkan átta í gærkvöldi barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um mann sem gekk milli húsa á Laugavegi og skrifaði á þau með tússpenna. Að því er fram kemur í dagbók lögreglu var maðurinn handtekinn fyrir eignaspjöll og brot á vopnalögum, en ekki kemur fram nákvæmlega í dagbókarfærslunni í hverju síðarnefnda brotið fólst.

Þá var annar maður handtekinn og kærður fyrir brot á vopnalögum, en tilkynning vegna hans barst klukkan 21:04 þar sem hann var í annarlegu ástandi með hníf í hendi við fjölbýlishús í Breiðholti.

Klukkan 02:11 fékk lögregla svo tilkynningu um að verið væri að kasta logandi hlutum í hús eitt í miðbænum. Á vettvangi var búið að brjóta rúður og fundust glóandi flöskur við húsið. Lögregla kveðst hafa málið til rannsóknar.

Þá skráir lögregla sex tilvik í dagbók sína þar sem ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×