Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, segist skilja gremju kylfinga sem eru afar ósáttir við að golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu hafi verið lokað.
Vegna sóttvarnaráðstafana var golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu lokað á föstudaginn og verða þeir lokaðir til 19. október. GSÍ bað jafnframt kylfinga ekki að leita út fyrir höfuðborgarsvæðið til að spila golf.
Ekki fóru þó allir eftir því. Tæplega 30 kylfingar frá höfuðborgarsvæðinu spiluðu á Akranesi um helgina og þá baðst Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, afsökunar á því að hafa farið í golf í Hveragerði.
Haukur ræddi við þá Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason í Bítinu á Bylgjunni í morgun um óánægju kylfinga.
„Maður kemst ekkert hjá því að verða var við hana og ég skil hana mjög vel. Ég er sjálfur mjög óánægður með að ekki sé hægt að fara í golf. Þetta er svipuð umræða og var tekin í vor þegar golftímabilið var að hefjast. Þá voru svipaðar takmarkanir yfirvalda gagnvart íþróttastarfsemi en á þeim tíma fengum við sérstaka undanþágu til að leika golf,“ sagði Haukur og bætti við að vel væri hægt að leika golf og gæta um leið að sóttvörnum.
Ekki furða að fólk klóri sér í höfðinu
Haukur segir að frumkvæðið að því að loka golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu sé komin frá sóttvarnayfirvöldum. Þau lögðu til við heilbrigðisráðherra að hlé yrði gert á öllu íþróttastarfi á höfuðborgarsvæðinu til 19. október. Heilbrigðisráðherra gekk ekki jafn langt og lagði ekki bann við íþróttaiðkun utandyra þótt mælst hafi verið til þess að hlé yrði gert á henni.
„Það er ekki furða að fólk klóri í höfðinu yfir því hvað sé rétt,“ sagði Haukur. „Við fórum mjög gaumgæfilega yfir þetta og í ljósi þessa misræmis milli stjórnvalda og sóttvarnayfirvalda óskuðum við sérstakra skýringa hver reglan væri. Og það lágu alveg skýr tilmæli fyrir um að íþróttastarf skyldi liggja niðri og við myndum loka golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu til 19. október. Og eftir þá yfirlegu ákváðum við að verða við þeim tilmælum.“
Haukur segir erfitt að fara ekki að tilmælum sóttvarnayfirvalda. „Þegar tilmæli beinast að okkur frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er kannski eðlilegt að fara að þeim. En það má alveg halda uppi rökræðunum hvort nauðsynlegt hafi verið að ganga svona langt og hvort hægt færi að finna aðra útfærslu.“
Hlusta má á viðtalið við Hauk hér fyrir neðan.