Þeir Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Joe Biden, mótframbjóðandi hans, munu keppa um áhorfendur í nótt, í stað þess að mætast í kappræðum eins og upprunalega stóð til. Báðir munu þeir svara spurningum kjósenda á sitthvorri sjónvarpsstöðinni og á sama tíma.
Biden verður á ABC þar sem hann mun svara spurningum kjósenda á fundi með svokölluðu bæjarfundarsniði. Trump verður á NBC á sama tíma þar sem hann mun sömuleiðis taka við spurningum frá kjósendum. Báðar útsendingar hefjast á miðnætti í nótt.
Aðrar kappræður frambjóðendananna áttu að fara fram í nótt en hætt var við þær eftir að Trump greindist með Covid-19. Þær áttu að fara fram í gegnum netið en Trump neitaði því.
Samkvæmt yfirlýsingu frá NBC, sem Reuters fréttaveitan vitnar í, hafa forsvarsmenn sjónvarpsstöðvarinnar fengið vilyrði lækna við því að Trump sé ekki lengur smitandi.
Forsvarsmenn NBC hafa þó verið harðlega gagnrýndir vestanhafs fyrir að skipuleggja þeirra fund á sama tíma og fundur Biden fer fram. Þar séu þeir ekki að gera kjósendum Bandaríkjanna neina greiða.
Í frétt CNN segir að ákvörðunin hafi ekki fallið í krafið hjá starfsmönnum NBC News.
Líkur Bidens aukast
Joe Biden hefur aukið fylgi sitt töluvert á landsvísu á undanförnum dögum og vikum. Kannanir sína þó að enn sé svo gott sem jafnt á milli Bidens og Trumps í nokkrum mikilvægum ríkjum eins og Flórída, Arizona, Pennsylvaínu Wisconsin og Norður-Karólínu.
Í greiningu Politico er vísað til átta mikilvægra ríkja en Biden hefur mælst með forskot í þeim öllum nema Georgíu. Í spálíkani tölfræðimiðilsins FiveThirtyEight segir að 87 prósenta líkur séu á því að Biden sigri í kosningunum.
Þá hefur orðið mikil aukning á fjölda utankjörfundaratkvæða í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að rétt rúmur hálfur mánuður sé í kosningarnar, sem fara fram þann 3. nóvember, hafa um það bil 15 milljónir Bandaríkjamanna þegar kosið. Washington Post segir að haldi þessi þróun áfram, gæti að orðið þannig að meirihluti kjósenda verði búnir að kjósa á sjálfan kjördag.
Það hafi aldrei gerst áður í sögu Bandaríkjanna.
Þriðju og síðustu kappræðurnar munu að óbreyttu fara fram eftir viku. Þann 22. október.