Lífið

Alltaf verið hrædd við að staðna

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Silja Rós er söngkona, leikkona, lagahöfundur og handritshöfundur. Hún hefur síðustu ár elt draumana erlendis en útilokar ekki að flytja aftur heim til Íslands.
Silja Rós er söngkona, leikkona, lagahöfundur og handritshöfundur. Hún hefur síðustu ár elt draumana erlendis en útilokar ekki að flytja aftur heim til Íslands. Alda Valentína Rós

„Stay Still er samið um sérstakt samband mitt við kyrrð og hugarró,“ segir söngkonan Silja Rós um lagið sem hún gaf út á föstudag. Lagið Stay Still er af samnefndri plötu sem hún stefnir á að gefa út á næsta ári. Silja Rós er búsett erlendis en dvaldi hér í nokkra mánuði á árinu og nýtti tímann í upptökur.

Silja Rós byrjaði snemma að syngja og var svo byrjuð að koma fram opinberlega á Café Rósenberg 17 ára.

„Tónlist hefur alltaf verið stór partur af mínu lífi, ég var alltaf orkumikið og tilfinningaríkt barn en það var alltaf hægt að þurrka tárin með því að syngja eitt til tvö lög. Ég byrjaði snemma að semja tónlist og syngja. 

Ég held ég hafi verið sjö ára þegar ég sagði við mömmu mína að mig langaði að búa til lög þegar ég yrði fullorðin. 

Ég eyddi frítíma mínum sem barn mikið að semja ljóð og laglínur sem er mjög fyndið að skoða í dag þar sem lögin voru auðvitað misgóð og textarnir skrautlegir. Sérstaklega þegar ég var að reyna að semja texta á ensku. Ég hóf svo nám í Söngskóla Reykjavíkur þegar ég var 14 ára og var þar undir leiðsögn Valgerðar Jónu í klassísku Söngnámi. Seinna meir færði ég mig svo yfir í FÍH í jazztónlist sem var töluvert nær mínum stíl í lagasmíð.“

Dásamlegur tími í Los Angeles

Hún elti svo draumana árið 2015 og flutti til Los Angeles þar sem hún lærði leiklist og vann síðan sem leikkona, söngkona og lagahöfundur.

„Ég ólst upp að hluta til í Chigo Californiu og eftir að við fluttum heim til Íslands var hugurinn alltaf ennþá í Californiu. Ég hafði alltaf átt mér draum að verða leikkona og fara í leiklistarnám erlendis. Ég sótti um nokkra skóla í Bretlandi og L.A og þegar ég komst inn í American Academy of Dramatic Arts þá var valið auðvelt. Ég útskrifaðist úr AADA 2018 og vann þar svo sem leikkona og tónlistarkona í eitt ár sem var dásamlegur tími.“

Silja Rós segir að það hafi verið ótrúlegt að starfa í þessari stórborg.

„Bransinn er svo stór sem þýðir að það var mjög mikið af prufum í boði. Þú ert í rauninni að sækja um vinnur og ný verkefni á hverjum degi. Þetta er mikil vinna en mjög skemmtileg á sama tíma, maður þarf líka að passa að hafa pakkann sinn svo fullkominn af því stundum er maður að keppa við þúsundir af leikurum sem eru á eftir sama hlutverki. Það var ótrúlega verðmætt að geta þjálfað prufuvöðvann sem er allt öðruvísi en þegar maður er kominn með verkefnið og hefur tíma til að fara í mikla ýtarlega vinnu á bak við hlutverkin. 

Maður þarf að venjast því að vinna hratt, læra margar blaðsíður af texta á stuttum tíma og gera svo bara sitt besta í prufunni. Þrátt fyrir að bransinn sé ansi stór og erfiður þá fékk ég frábær tækifæri.

Ég starfaði að mestu á sviði og tók þátt í tveimur söngleikjum, Þumalínu og Mowgli, þar sem ég fór með lykilhlutverk í sýningunum. Ég hef líka alltaf haft mikla ástríðu fyrir Shakespeare og fékk hlutverk í Machbeth sem var sýnt í byrjun árs 2019. Þetta var krefjandi tími og þrátt fyrir að ég hafi fengið frábær tækifæri voru prufurnar enn fleiri og maður þurfti að venjast því að fá nei inn á milli. Þegar það komu rólegir tímar í leiklistinni gat ég einbeitt mér að handritaskrifum og auðvitað tónlistinni, samið tónlist og spilað á tónleikum.“

Félagsskapurinn verðmætur

Nú býr hún í Danmörku og finnst gott að vera komin nær heimaslóðum.

„Kaupmannahöfn er allt öðruvísi en LA, hún er nær Reykjavík. En mér finnst Danir samt vera mun rólegri en Íslendingar. Þeir kunna að njóta frítímans. Ég hef aðallega starfað við tónlist og lagasmíð í Kaupmannahöfn bæði fyrir mig og aðra. Ég hef líka verið að semja tónlist með öðrum listamönnum sem er ótrúlega skemmtilegt. 

Áður fyrr samdi ég alla tónlist ein, en í dag finnst mér eiginlega skemmtilegra að vera með aðra manneskju inn í stúdíóinu. Félagsskapurinn er verðmætur og hugmyndirnar sem koma eru líka mun fjölbreyttari því við erum öll með okkar ólíka fingrafar. Í fyrra tók ég þátt í mínum fyrstu lagahöfundabúðum hjá DBA og útgáfufyrirtækinu Arrangement þar sem ég fékk tækifæri til að semja tónlist og kynnast öðrum dönskum listamönnum.“

100.000 spilanir

Silja Rós hefur unnið sem lagahöfundur og textahöfundur fyrir ýmsa tónlistarmenn þar á meðal Future Lion, Magnús Dagsson, Unni Söru Eldjárn, Rikardo og franska elektró bandið Darwin x Mainecoon. Síðasta samstarf Darwin x Mainecoon og Silju var lagið Easy sem hefur hlotið meira en 100.000 spilanir á Spotify.

„Um þessar mundir er ég að klára plötuna mína sem er væntanleg næsta vor en platan hefur verið styrkt af Menningarsjóði, Stef, Bylgjunni og Stöð 2. Svo er ég líka að skrifa handrit af spennandi verkefnum sem fara vonandi í tökur sem fyrst. Þannig það er nóg að gera. Núna í haust hef ég svo loksins getað spilað á tónleikum hér í Kaupmannahöfn eftir að hafa þurft að fresta öllum tónleikunum sem voru áætlaðir frá því í Mars. Næstu tónleikarnir mínir eru 29. október, þeir eru auðvitað minni en áður var áætlað og förum við eftir þeim reglum sem eru hérna í Kaupmannahöfn. Gestir þurfa til dæmis allir að mæta með grímur og halda ákveðinni fjarlægð.“

Hún útilokar ekki að flytja aftur heim til Íslands í framtíðinni.

„Mér þykir ótrúlega vænt um Ísland og get alveg hugsað mér að búa þar í framtíðinni. Það fer í raun algjörlega eftir verkefnum. Ég fylgi bara flæðinu og bý þar sem vinnan mín er.“

Silja Rós kemur alltaf til Íslands á sumrin og yfir jólin. Á þessu ári dvaldi hún lengur hér vegna heimsfaraldursins og var í tæpt hálft ár.

Lagið sem Silja Rós gaf út á föstudag fjallar um að finna innri hugarró.Alda Valentína Rós

„Þegar ég og kærastinn minn komum heim frá Kaupmannahöfn í vor vorum við búin að vera í hálfgerðri sóttkví í sex vikur og hittum engan annan. Við vorum bara mjög dugleg að fara í göngutúra og njóta náttúrunnar. Það var alveg yndislegt að koma til Íslands, það voru flestir fluttir heim frá útlöndum þannig að allir voru á landinu. Og svo vorum við auðvitað mjög heppin hvað veiran lá í miklum dvala hér í sumar miðað við önnur lönd.“

Þakklát fyrir styrkinn

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á líf og afkomu tónlistarfólks um allan heim enda hefur flestum tónleikum og viðburðum verið aflýst síðustu mánuði. Tónskáldasjóður Bylgjunnar og Stöðvar 2 úthlutaði í samvinnu við STEF 7.800.000 krónum til tónlistarfólks í sumar en alls hlutu 42 listamenn styrk og var Silja Rós þar á meðal.

„Það er skrítið að segja það, en þetta ár hefur verið yndislegt þrátt fyrir þessa skrítnu tíma. Ég get ekki kvartað. Auðvitað er leiðinlegt að þurfa að aflýsa tónleikum og missa tekjur tengda tónleikum og viðburðum. En ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið styrk til að geta klárað plötuna mína. Tíminn minn hefur að mestu farið í lagasmíð, handritaskrif og jóga. Það er margt spennandi í kortunum.“

Við gerð plötunnar fékk Silja Rós mikinn innblástur frá tónlistarkonunum Sabrinu Claudio, Billie Eilish og Snoh Aalegra. Lagið Stay Still átti upphaflega að koma út á þeim tíma sem samkomubannið hófst.

„Ég ákvað þá að hlusta á innsæið mitt og geyma útgáfuna. Það var eitthvað magnað sem gerðist á þessum tíma. Ég komst í raun í fyrsta sinn í almennilega snertingu við hugarró. 

Þetta var í fyrsta skiptið sem mér leið jafn vel í kyrrðinni og mér líður þegar ég er á fullu. Það var eins og þegar heimurinn stöðvaðist þá gæti ég staldrað við og notið kyrrðarinnar. Kannski er ég bara svona háð þeim hraða sem umhverfið mitt er í. 

Þetta var mögnuð upplifun og kenndi mér svo margt, kenndi mér mikilvægi kyrrðarinnar. Nú er ég að reyna að blanda þessu saman. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og vaxa sem manneskja það er það fallegasta við það að eldast.“

Lagið Stay Still er komið út á Spotify og má hlusta á það í spilaranum hér fyrir neðan. 

Leitar annað eftir innblæstri

„Lagið varð til árið 2018 þegar ég var undir miklum innblæstri frá RnB tónlist. Í kjölfarið ákvað ég að einbeita mér alfarið að þeirri tónlistarstefnu og þróa mig sem tónlistarkonu í þá átt sem talaði til mín best í núinu. Ári áður hafði ég stundað jazz nám við FÍH og áhrifin komu mörg hver þaðan,“ segir Silja Rós.

„Lagið tók langan tíma að fæðast og tók miklum breytingum í gegnum ferlið þar til við loksins fundum útgáfuna sem okkur fannst passa fullkomlega við lagið. Jazztónlistarmennirnir Magnús Dagsson og Jakob Gunnarsson settu sitt einstaka fingrafar á lagið. Stay Still er producerað af Whyrun & Slaema og masterað af Skonrokk.“

Sija Rós segir að útkoman sé nútíma RnB popp plata.

„Textarnir eru flestir persónulegir og tengdir mínu lífi eða annarra í kringum mig. Ég er á mjög góðum stað í lífinu í dag í hamingjusömu sambandi þannig stundum þarf ég að leita af tilfinningalegum innblæstri á öðrum stöðum. Lögin eru öll samin af mér og ég samdi þau flest í LA“

Frá upptökum tónlistarmyndbandsins. Myndband gerðu Inga Óskarsdóttir, Róbert Magnússon og Alda Valentína Rós,Alda Valentína Rós

Alltaf á milljón

Tónlistarmyndbandið við lagið Stay Still er væntanleg í byrjun janúar. Silja Rós segir að lagið fjalli um það hvað myndi gerast ef hún væri ein heima hjá sér í nokkrar klukkustundir.

„Í rauninni byggt mikið á sóttkvíar tímum þó svo að ég hafi verið mjög heppin að búa með kærastanum mínum á þeim tíma. Ef ég hefði verið ein hefði mér ábyggilega leiðst mun meira og ég hefði endað á því að dansa um alla íbúðina, klippa á mér hárið sem ég reyndar gerði, eða mála risastórt málverk með líkamanum.“

Silja Rós segir að allir virðist þrá hugarró, en henni persónulega hafi þótt það flókið.

„Ég hef alltaf verið mjög virk manneskja og hef átt erfitt með að finna mína innri ró. Þegar ég næ að róa líkamann minn þá virðist hugurinn alltaf vera á milljón ýmist að plana framtíðina, verkefni eða á fullu í einhverskonar listsköpun. 

Andlega heilsan mín er alltaf best þegar ég er á hlaupum út um allan bæ með nóg að gera. Ég hef í raun alltaf óttast kyrrðina og að standa í stað en á sama tíma þrái ég hugarró. Lagið varð til út frá þeim hugsunum og er í raun samtal við mínar eigin hugsanir. 

Ég er líka mikil félagsvera og ætli það sé ekki hægt að segja að ég sé mjög háð fólki. 

Mér finnst best að njóta kyrrðarinnar í nærveru annars fólks. Í raun þykir mér best að hafa einhvern sem myndi halda utan um mig í gegnum rólega tíma. Það var rót textans sem kom auðveldlega til mín beint frá hjartanu.“

Silja Rós segir að hún hafi alltaf hræðst kyrrðina og að hafa ekkert að gera en á sama tíma þráð þessa tilfinningu að ná hugarró.

„Ég hef alltaf verið mjög virk manneskja, mér líður best þegar það er mjög mikið að gera. Ég á mjög erfitt með að slaka á, um leið og það er rólegt hjá mér þá fer kvíðinn að banka uppá. Ég var fyrst stressuð yfir því að þetta yrði mjög krefjandi tími andlega en sem betur fer varð það öfugt hjá mér. Um leið og heimurinn stöðvaðist þá var eins og ég gæti líka staldrað við og notið kyrrðarinnar. Ég hef lært ótrúlega margt um sjálfan mig. Ég hef haldið heilsunni og andlega heilsan hefur aldrei verið betri.“

Lagið Stay Still er komið á SpotifyShamir

Danir skilja þetta ekki

Silja Rós segir að hún sé alls ekki ein um það að hræðast að staldra við.

„Ég held að þetta sé sérstaklega algengt hjá listamönnum sem eru kannski ekki í eins öruggu starfsumhverfi. Verkefnin koma í bylgjum. Það er alltaf einhver hræðsla innst inni þegar það kemur rólegur tími þar sem maður óttast þess að þessi tími verði of langur og þá nær maður ekki alveg að njóta þess tíma. Þegar ég bjó í LA þá var það í fyrsta sinn sem ég vann ekki með námi, einfaldlega af því ég mátti það ekki. Það var frábært að geta einbeitt sér 100 prósent af náminu, enda var það alveg nógu krefjandi og tímafrekt fyrir. Þegar ég var í FÍH prófaði ég að vera bara að vinna í fyrstu plötunni minni með náminu en endaði svo á því að vera komin með þrjár vinnur og keyra mig algjörlega út. 

Það var bara vegna þess að þegar ég sagðist vera í tónlistarnámi og að vinna í plötunni minni var eins og fólk tæki því ekki sem alvöru vinnu og fannst stórskrítið að ég væri ekki að vinna með námi.

 Ég tók þetta mjög nærri mér og endaði á því að hringja á alla fyrrum vinnustaði sem vildu allir fá mig aftur og ég gat ekki valið á milli svo ég vann á öllum sem var alls ekki góð ákvörðun andlega. Ég var bara að reyna að geðjast öllum en gleymdi að hugsa um sjálfa mig. 

Hjá mér er þetta beintengt við kvíða eða high functioning anxiety. Ég hef alltaf verið hrædd við að staðna. Maður lærir samt að lifa með kvíðanum og ég hef unnið mikið í honum seinustu ár. Ég vissi í raun ekki að ég væri með kvíða fyrr en ég flutti erlendis því á Íslandi er það svo venjulegt að vera upptekinn.“

Hún hefur nú áttað sig á mikilvægi hugarró og hvíldar og finnur jákvæðu áhrifin.

„Að leyfa sér smá tíma til að anda og tengjast kjarnanum sínum betur. Gefa sér tíma til að endurstilla sig. Mér líður ennþá best þegar ég er upptekin en ég á mun auðveldara með því að slaka á án þess að fá samviskubit. Það er mjög frelsandi. Ég held að það hafi líka hjálpað mikið að vera í Danmörku, Danir skilja ekki alveg af hverju fólk myndi vilja keyra sig svona mikið út.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×