Óvæntur liðsauki sem Almannavarnir fengu á Vatnajökli í vikunni, frá ólíkum félögum, stofnunum og einstaklingum, tryggði að samband rofnaði ekki við tækjabúnað sem vaktar eldstöðina Grímsvötn. Stefndi í að bilun rafstöðvar á Grímsfjalli myndi valda sambandsleysi við rannsóknartæki Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands, sem talið var óásættanlegt vegna vísbendinga um að eldgos gæti verið í uppsiglingu.
Vísindatækin eru í skálum Jöklarannsóknafélags Íslands á Grímsfjalli. Auk þess er Neyðarlínan þar með TETRA-sendi og örbylgjusamband sem nær niður á Skeiðarársand. Allar gagnasendingar fara um þennan sendi en hann fær orku úr rafgeymastæðu sem hlaðin er með fjarstýrðri rafstöð.

Þegar rafstöðin bilaði í vikunni stóðu menn frammi fyrir því að einungis 24 tímar væru eftir af hleðslu rafgeymanna og eftir það myndu gögn hætta að berast frá Grímsfjalli. Var gripið til þess ráðs að óska aðstoðar Landhelgisgæslunnar til þess að fljúga með nýja rafstöð upp á Vatnajökul. Sú leið reyndist ófær þar sem rafstöðin var talin of þung fyrir þyrlu.

„Það var til happs að hópur frá Landsvirkjun, Jarðvísindastofnun og Neyðarlínunni var við mælingar á Vatnajökli og lögðust allir á eitt við að koma nýrri rafstöð upp á Grímsfjall,“ segir í pistli á fésbókarsíðu Almannavarna.

Til að allt gengi sem skjótast fyrir sig, áður en rafgeymarnir tæmdust, var ákveðið að ný rafstöð yrði flutt landleiðina með bíl austur að Skálafellsjökli. Á sama tíma færi snjóbíll Hjálparsveitar skáta, sem var að þjónusta mælingaleiðangurinn, akandi frá Grímsfjalli niður að jökulsporði til móts við rafstöðina.
„Vel gekk að koma rafstöðinni fyrir í snjóbílnum með aðstoð Bjarna Skarphéðins á Vagnsstöðum, sem kom með traktor til að lyfta rafstöðinni, og var hún komin upp á Grímsfjall kl. 04 um nóttina, eða um 18 tímum eftir að óskað var eftir nýrri rafstöð. Rúmlega 2 tíma tók að ganga frá henni og tengja og var allt farið að virka áður en hleðsla geymanna tæmdist,“ segir í lýsingu Almannavarna.
„Þetta er stutt saga um frábæra samvinnu fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem leggja sitt af mörkum til almannavarna þegar mest á reynir, því við erum öll almannavarnir,“ segir þar.