Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður Avaldsnes í Noregi, hefur verið kölluð inn í íslenska landsliðshópinn fyrir leikinn mikilvæga gegn Svíum í undankeppni EM.
Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari Íslands, hefur kallað Hólmfríði Magnúsdóttur, inn í íslenska landsliðshópinn fyrir leikinn mikilvæga gegn Svíþjóð í undankeppni EM þann 27. október.
Kemur þetta fram á vef KSÍ í dag.
Hólmfríður Magnúsdóttir inn í hópinn - Knattspyrnusamband Íslands https://t.co/zVc4v56xud
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) October 17, 2020
Hin 36 ára gamla Hólmfríður kemur inn í hópinn fyrir Dagnýju Brynjarsdóttur sem hefur átt við meiðsli að glíma undanfarið. Hólmfríður hefur leikið 112 leiki fyrir A-landslið Íslands og skorað í þeim 37 mörk.
Hún gekk nýverið til liðs við Avaldsnes að nýju eftir að hafa leikið með Selfyssingum í Pepsi Max deildinni. Því má segja að Selfyssingur sé að leysa Selfyssing af hólmi í landsliðinu þar sem Dagný er í dag leikmaður liðsins.
Ísland og Svíþjóð gerðu 1-1 jafntefli er þau mættust á Laugardalsvelli og því er um algjöran úrslitaleik að ræða í riðlinum en bæði lið eru með 13 stig í efstu tveimur sætunum.
Leikur Svíþjóðar og Íslands verður sýndur beint á Stöð 2 Sport þann 27. október.