Innlent

Handtekinn á Austurvelli grunaður um vopnað rán

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Almenn lögregla og sérsveit tók þátt í aðgerðinni. Mynd úr safni.
Almenn lögregla og sérsveit tók þátt í aðgerðinni. Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Sérsveit handtók mann á Austurvelli í dag sem hafði framið vopnað rán í verslun í austurborginni. Myndbandi af handtökunni hefur verið deilt á samfélagsmiðlum og vakið nokkra athygli.

Twitter-notandinn Geoffrey Skywalker sem deildi myndbandi af handtökunni spyr hvort aðgerðin hafi verið „eðlilegar varúðarráðstafanir lögreglu þegar handsama þarf tvo ógæfumenn af bekk á Austurvelli? Er sérsveitin, stífvopnuð og vissulega mjög ógnandi í sínum aðgerðum nauðsynleg í svona útköll? Eiga útigangsmenn í Reykjavík hættu á að vera skotnir?“ skrifar Geoffrey en mbl.is greindi fyrst frá.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að ekkert sé við verklag lögreglu að athuga. „Það var framið vopnað rán fyrir hádegi í verslun í austurborginni og við vorum að handtaka gerandann, ræningjann,“ segir Jóhann Karl.

„Það var bæði almenn lögregla og sérsveit sem kom að þessari aðgerð. Þegar maður er búinn að ræna verslun með eggvopni og þá tökum við enga sénsa á því, þegar hann er handtekinn, að hann ráðist ekki gegn okkur. Það er staðlað verklag að kalla til sérsveit.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×