Erlent

Birti myndir af af­höfðuðu líkinu á Twitter

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Árásarmaðurinn birti myndir af líkinu á Twitter.
Árásarmaðurinn birti myndir af líkinu á Twitter. AP Photo/Michel Euler

Maðurinn sem myrti kennara í úthverfi Parísar í gær beið fyrir utan skólann og bað nemendur að benda á skotmark sitt að sögn frönsku hryðjuverkalögreglunnar. Maðurinn birti síðar myndir af líki Samuel Paty á samfélagsmiðlum.

Samuel Paty, 47 ára sögu- og landafræðikennari, hafði sýnt nemendum sínum skopmyndir af spámanninum Muhammed og er það talin kveikjan að árásinni.

Árásarmaðurinn skaut síðar í gær úr loftbyssu í átt að lögreglu sem svo skaut hann til bana. Níu hafa verið handtekin í tengslum við árásina og er nú rannsakað hvort þau hafi tengsl við íslamska hryðjuverkahópa.

Franska hryðjuverkalögreglan hefur borið kennsl á árásarmanninn, sem hét Abdoulakh A., og var átján ára gamall. Hann er af téténskum ættum en fæddist í Moskvu. Abdoulakh sótti um hæli í Frakklandi sem drengur og var hann hryðjuverkalögreglunni óþekktur.

Birti myndir af líkinu á Twitter

Árásarmaðurinn er ekki talinn hafa haft nein tengsl við Paty eða skólann en hann var búsettur í Évreux í Normandy, um hundrað kílómetrum frá árásarstaðnum. Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu en aðeins fyrir smábrot.

Hann er sagður hafa farið í skólann sem Paty kenndi við síðdegis á föstudag og beðið nemendur skólans að benda á Paty. Hann elti svo Paty á leið hans heim og réðst á hann með hníf. Eftir að hafa veitt Paty nokkra höfuðáverka með hnífnum afhöfðaði hann Paty.

Abdoulakh birti myndir af líkinu á Twitter auk þess sem hann sagði Emmanuel Macron og Frakka alla „heiðingja“ og „hunda.“

Þegar lögregla nálgaðist hann skaut hann að þeim með loftbyssu. Lögreglan svaraði í sömu mynt en hann var skotinn alls níu sinnum áður en hann dó. Um 30 sentímetra hnífur fannst á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×