Kínversk yfirvöld hafa varað yfirvöld í Washington við því að Bandaríkjamönnum í Kína verði meinað að fara úr landi. Það verði gert vegna málsóknar dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna gegn fræðimönnum sem hafa tengsl við kínverska herinn.
Samkvæmt heimildamönnum Wall Street Journal hafa kínversk yfirvöld ítrekað varað yfirvöld í Bandaríkjunum við þessu og notað til þess ýmsar leiðir.
Viðvararnir hljóði svo að hætti Bandaríkjastjórn ekki málsóknum á hendur kínverskum fræðimönnum gæti orðið svo að Bandaríkjamenn í Kína muni verða lögsóttir vegna brota á lögum.
Hvorki Hvíta húsið, utanríkisráðuneyti né dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hafa brugðist við fréttunum þrátt fyrir fyrirspurnir. Þá hefur kínverska sendiráðið í Washington ekki brugðist við fyrirspurnum.
Þúsund kínverskum ríkisborgurum vísað úr landi
Ráðgjafi í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sagði þann 14. september síðastliðinn óráðlegt að ferðast til Kína og sagði hann að kínversk yfirvöld veldu Bandaríkjamenn af handahófi sem teknir væru í gæsluvarðhald, og væri það notað til þess að beita Bandaríkjastjórn þrýstingi.
Í júlí voru þrír Kínverjar handteknir af Alríkislögreglu Bandaríkjanna og voru þeir sakaðir um að hafa leynt því, þegar þeir sóttu um landvistarleyfi til að sinna rannsóknum við bandaríska háskóla, að þeir væru meðlimir í kínverska hernum, PLA.
Þá var að tilkynnt í síðasta mánuði að meira en þúsund kínverskir ríkisborgarar hafi verið sviptir landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Það var gert eftir að Bandaríkjaforseti gaf út tilskipun að neita ætti kínverskum stúdentum og fræðimönnum um landvistarleyfi vegna öryggisástæðna. Kínversk stjórnvöld hafa sagt tilskipunina mannréttindabrot.
Á þeim tíma sagði talskona utanríkisráðuneytisins að Bandaríkin myndu halda áfram að bjóða „lögmæta stúdenta og fræðimenn frá Kína, sem ekki styddu áform Kommúnistaflokks Kína um hernaðarlega yfirburði, velkomna.“