Innlent

Umferðarflæðið batnar þegar þessir þrír vegarkaflar klárast

Kristján Már Unnarsson skrifar
Reykjanesbraut í Hafnarfirði í dag. Breikkun úr tveimur akreinum í fjórar er á lokametrunum.
Reykjanesbraut í Hafnarfirði í dag. Breikkun úr tveimur akreinum í fjórar er á lokametrunum. Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Verulegar samgöngubætur eru framundan á stofnbrautum Reykjavíkursvæðisins. Þrír vegarkaflar, sem allir bæta umferðarflæði, eru að klárast og verða teknir í notkun á næstu vikum. Mestu munar um breikkun Reykjanesbrautar í Hafnarfirði. Þetta mátti sjá í fréttum Stöðvar 2.

Breikkun Vesturlandsvegar í gegnum Mosfellsbæ er einn af þessum köflum en verkefnin þrjú eiga það sammerkt að þau eru öll unnin rösklega. Þannig eru aðeins liðnir fimm mánuðir frá því Vegagerðin samdi við lægstbjóðanda, fyrirtækið Loftorku, um að breikka 1.100 metra vegarkafla meðfram Lágafelli, milli Skarhólabrautar og Langatanga, fyrir 490 milljónir króna. 

Fá Vesturlandsvegi við Lágafell í Mosfellsbæ.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Reiknað er með að allar fjórar akreinar, með aðskildum akstursstefnum, verði komnar í notkun eftir tvær vikur eða svo, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Verkinu á að skila fullbúnu eigi síðar en 1. desember.

Það eru einnig aðeins fimm mánuðir frá því Vegagerðin skrifaði upp á 402 milljóna króna verksamning við Óskatak um að breikka Suðurlandsveg norðan Rauðavatns, á 1.400 metra kafla næst Vesturlandsvegi. Þar er einnig verið að lengja undirgöng við Krókháls. Þessu verki lýkur í byrjun desember.

Frá Suðurlandsvegi norðan Rauðavatns. Brúin fremst tengir Bæjarháls og Hádegismóa.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Breikkun 3,2 kílómetra kafla Reykjanesbrautar í Hafnarfirði, milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurgatnamótanna, er einnig á lokametrunum og umferð að hluta komin á báðar akreinar. Þar hljóðar verksamningur upp á 2,1 milljarð króna. Verktakinn Ístak hófst handa í maí í fyrra, fyrir sautján mánuðum, og er stefnt að formlegri opnun um miðjan nóvember.

Það er kannski fátt jákvætt hægt að segja um covid. Og þó: Vegna faraldursins hafa umferðartafir verið mun minni en búast hefði mátt við vegna framkvæmdanna.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×