Innlent

Brá við skjálftann en allir héldu ró sinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Hraunvallaskóla í Hafnarfirði.
Frá Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Vísir/Vilhelm

Skólabygging Hraunvallaskóla á Völlunum í Hafnarfirði gekk til í jarðskjálftanum sem reið yfir á öðrum tímanum í dag. Skólastjórinn þar segir að nemendum og starfsfólki hafi verið brugðið en að allir hafi haldið ró sinni.

Jarðskjálftinn sem reið yfir klukkan 13:43 var 5,7 að stærð og átti upptök sín rúma fjóra kílómetra vestur af Krýsuvík samkvæmt óstaðfestum tölum Veðurstofunnar. Vallahverfi er sá hluti höfuðborgarsvæðisins sem er næst upptökunum.

Lars Jóhann Imsland, skólastjóri Hraunvallaskóla, segir að hann hafi fundist mjög vel innandyra en síður utandyra. Byggingin hafi gengið aðeins til í hristingnum.

Yngstu nemendurnir voru farnir heim þegar jarðskjálftinn reið yfir og flestir þeirra sem eru í lengri viðveru í skólanum voru úti að leik og urðu ekki mikið varir við jarðhræringarnar, að sögn Lars. Miðdeild, börn á aldrinum tíu til tólf ára, var aftur á móti á leiðinni út úr skólanum og fundu börnin vel fyrir skjálftanum.

Lars segist hafa verið á fjarfundi þegar jarðskjálftinn dundi á og hafi strax farið fram á gang að hlúa að starfsfólki og nemendum en allt í lagi hafi verið með alla.

„Það var öllum náttúrulega brugðið en alveg rólegir,“ segir skólastjórinn um viðbrögð nemenda og kennara.

Lars segist ekki hafa fundið fyrir öðrum eins jarðskjálfta í skólanum. Sérstaklega hafi hann varað lengi. Engir lausamunir hafi þó farið á hreyfingu.

„Nú eru nemendur bara úti að leika að sér og allt í góðu,“ segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×