Íslenski boltinn

KSÍ ætlar að klára Íslandsmótið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik í Pepsi Max-deild karla. Flest liðin þar eiga fjóra leiki eftir.
Úr leik í Pepsi Max-deild karla. Flest liðin þar eiga fjóra leiki eftir. vísir/hulda margrét

Knattspyrnusamband Íslands ætlar að halda mótum meistaraflokka karla og kvenna í öllum deildum áfram svo framarlega sem takmarkanir á æfingum og keppni verði afnumdar eigi síðar en 3. nóvember.

Keppni í öllum yngri flokkum og eldri flokkum (40+ og 50+) hefur hins vegar verið hætt.

KSÍ gefur út niðurröðun leikja með nýjum leikdögum á morgun.

Í frétt á heimasíðu KSÍ kemur fram að stjórn sambandsins hafi ályktað að allra leiða verði leitað til að klára Íslandsmótið samkvæmt mótaskrá. Stjórn ÍTF, Íslensks toppfótbolta, hefur ályktað á sama hátt. 

Ekki hefur verið leikið á Íslandsmótinu síðan 7. október, þegar hertar sóttvarnareglur vegna kórónuveirufaraldursins tóku gildi. Í gær voru þær svo framlengdar til 3. nóvember.

Ef reglur yfirvalda standa ekki í vegi fyrir því hefst keppni á Íslandsmótinu aftur í byrjun nóvember. KSÍ hefur gefið sér frest til 1. desember til að ljúka keppni á Íslandsmótinu.

Yfirlýsing stjórnar KSÍ

Það er ljóst að ákvörðunin um að halda áfram keppni er tekin á erfiðum tímum í samfélaginu. Keppnistímabilið hefur reynt á aðildarfélögin og iðkendur okkar sem og sjálfboðaliða. Á sama tíma höfum við staðið undir þeim áskorunum sem við höfum þurft að takast á við saman og notið fótboltans á þessum erfiðu tímum. Það er í þeim anda sem að við teljum mikilvægt að við klárum tímabilið í öllum deildum þar sem skýr niðurstaða liggur ekki fyrir í deildakeppninni.

Það reynir á okkur í knattspyrnuhreyfingunni eins og samfélagið allt en við vonumst til þess að í góðu samráði og samkvæmt reglum heilbrigðisyfirvalda takist að finna leiðir til þess að ljúka deildarkeppninni fyrir 1. desember. Við stöndum saman þegar á reynir og látum úrslitin ráðast á vellinum ef mögulegt er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×