Erlent

Utan­ríkis­ráð­herra Belgíu á gjör­gæslu vegna Co­vid-19

Atli Ísleifsson skrifar
Sophie Wilmes gegnir nú embætti utanríkisráðherra Belgíu, eftir að hafa leitt starfsstjórn mánuðina þar á undan.
Sophie Wilmes gegnir nú embætti utanríkisráðherra Belgíu, eftir að hafa leitt starfsstjórn mánuðina þar á undan. EPA

Sophie Wilmes, utanríkisráðherra Belgíu og fyrrverandi forsætisráðherra, liggur nú á gjörgæslu á sjúkrahúsi í úthverfi Brussel, um viku eftir að hún greindist með kórónuveirusmit.

Ástand Wilmes, sem lét af embætti forsætisráðherra í byrjun mánaðar, er sagt vera eftir atvikum gott og segir starfslið hennar að hún sé með meðvitund.

Elke Pattyn, talsmaður utanríkisráðuneytis landsins, segir að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af ástandi hinnar 45 ára Wilmes.

Wilmes leiddi Belgíu í gegnum fyrri bylgju heimsfaraldursins en lét af embætti í byrjun mánaðar þegar samkomulag náðist um nýja samsteypustjórn í landinu. Alexander de Croo tók þá við embætti forsætisráðherra af Wilmes.

Wilmes greindi frá því á laugardaginn að hún hafi greinst smituð af kórónuveirunni, fáeinum dögum eftir að hafa átt fund með evrópskum starfsbræðrum og -systrum sínum í Lúxemborg. Utanríkisráðherra Austurríkis greindi sömuleiðis frá því fyrr í vikunni að hann hafi greinst með Covid-19.

Belgíski utanríkisráðherrann sagðist þó telja að hún hafi smitast af einhverjum í fjölskyldu sinni, sé tillit tekið til þeirra varúðarráðstafana sem gripið var til á fundi utanríkisráðherranna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×