Riðusmit hefur greinst á þremur bæjum á Tröllaskaga til viðbótar við Stóru Akra 1 þar sem smit varð staðfest í vikunni. Skera þarf niður tæplega þrjú þúsund fjár. Rætt verður við sveitastjóra Skagafjarðar í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Nokkrir starfsmenn og einn sjúklingur greindust með kórónuveiruna á Landakoti í gær og búið er að loka deildinni. Rætt verður við framkvæmdastjóra sviðsins í beinni útsendingu í fréttatímanum.
Að auki verður rætt við varaformann Verkalýðsfélags Vestfjarða í fréttatímanum um skipverjana sem voru fastir á sjó í þrjár vikur með kórónuveiruna. Skammta þurfti verkjalyfjum til alvarlega veikra manna.
Í fréttatímanum förum við einnig í miðbæinn og skoðum hvort hægt sé að glæða miðbæinn lífi með því að fá skapandi fólk til að nýta tóm rými á Laugaveginum.
Þetta og margt fleira í þéttum kvöldfréttatíma á samtengdum rásum Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis kl. 18:30