Erlent

Hríðversnandi staða í Evrópu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lítið var um líf á götum spænskra borga í nótt eftir að útgöngubannið tók gildi.
Lítið var um líf á götum spænskra borga í nótt eftir að útgöngubannið tók gildi. AP/Alvaro Barrientos

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á Spáni og hertar takmarkanir voru kynntar á Ítalíu vegna kórónuveirufaraldursins.

Útgöngubann tók gildi á Spáni í gærkvöldi og gildir frá klukkan ellefu að kvöldi til sex að morgni. Eins og stendur gilda reglurnar næstu fimmtán daga en forsætisráðherra ætlar að leggja fyrir þingið að þær verði framlengdar um hálft ár.

Spánn kom afar illa út úr fyrstu bylgju faraldursins og settu stjórnvöld þá mun harðara útgöngubann. Nú hefur önnur bylgja skollið á og sagði forsætisráðherrann í gærkvöldi að ástandið í landinu hefði ekki verið alvarlegra í hálfa öld.

Alls hefur rúm milljón smitast á Spáni og fleiri en þrjátíu þúsund hafa látist. Staðan fer þó versnandi í fleiri Evrópuríkjum, en á Ítalíu voru hertar takmarkanir sömuleiðis kynntar í gær.

Kvikmynda- og leikhúsum, sundlaugum og líkamsræktarstöðvum var lokað þar í landi í dag. Þá mega krár, veitingastaðir og kaffihús ekki þjóna til borðs eftir klukkan átta. Yfirvöld í Napólí kölluðu eftir enn harðari takmörkunum og fór það ákall öfugt ofan í fjölda borgarbúa sem mótmælti af hörku í nótt.

Fimmtíu og tvö þúsund greindust með veiruna í Frakklandi í gær og er það met. Stjórnvöld hafa hingað til einbeitt sér að hertum aðgerðum á þeim svæðum þar sem staðan er verst en læknar og sérfræðingar kalla nú í auknum mæli eftir útgöngubanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×