Ólafur Guðmundsson hefur dregið sig út úr íslenska landsliðshópnum sem mætir Litháen og Ísrael í undankeppni EM 2022 í handbolta í næsta mánuði. Hann staðfesti þetta við handbolta.is.
Ólafur tognaði aftan í læri í leik Kristianstad og Guif í sænsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Hafnfirðingurinn vonast til að verða ekki lengur frá en í tvær vikur.
Vegna meiðslanna var Ólafur fjarri góðu gamni þegar Kristianstad sigraði Dinamo Búkarest, 31-22, í Evrópudeildinni í gær.
Ísland mætir Litháen 4. nóvember og Ísrael fjórum dögum síðar. Báðir leikirnir fara fram í Laugardalshöllinni.
Auk Íslands, Litháens og Ísraels er Portúgal í riðli 4 í undankeppni EM. Tvö efstu liðin komast á EM sem og þau fjögur lið sem eru með bestan árangur í 2. sæti riðlanna átta í undankeppninni.