Björgunarsveitir á Suðausturhorninu og á Austfjörðum leita nú að manni í Stafafellsfjöllum í Lóni. Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðar við leitina.
Samkvæmt Facebook-færslu Lögreglunnar á Suðurlandi boðaði lögreglan allar björgunarsveitir í Austur-Skaftafellssýslu og á Austurlandi til að leita að manninum.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að útkall vegna leitarinnar hafi borist klukkan átta, en ákveðið hafi verið að bæta í leitina eftir því sem leið á kvöldið.
Því séu um tíu hópar björgunarsveitamanna að störfum við leitina, fótgangandi um leitarsvæðið auk þess sem að drónar eru nýttir við leitina. Þá er von á sporhundum með þyrlu Landhelgisgæslunnar.