Innlent

Ekki rannsakað með fullnægjandi hætti hvort sleðahundahald teljist til landbúnaðar

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jörðin þar sem félagið hugðist stofna lögbýli er skilgreind sem landbúnaðarsvæði og sneri ágreiningurinn meðal annars að því hvort hundahald fyrir hundasleðaferðir gæti talist til landbúnaðar.
Jörðin þar sem félagið hugðist stofna lögbýli er skilgreind sem landbúnaðarsvæði og sneri ágreiningurinn meðal annars að því hvort hundahald fyrir hundasleðaferðir gæti talist til landbúnaðar. Getty

Umboðsmaður Alþingis hefur beint því til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að taka til meðferðar að nýju mál félags, sem er með rekstur og dýrahald fyrir hundasleðaferðir, en var synjað um heimild til stofnun lögbýlis. Umboðsmaður telur ákvörðun ráðuneytisins um að synja félaginu um heimild til stofnun lögbýlis ekki byggða á fullnægjandi lagagrundvelli, meðal annars þar sem ráðuneytið hafi ekki lagt fullnægjandi mat á það hvort starfsemi félagsins teldist til landbúnaðar.

Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns sem birt var á vef embættisins í dag. Á málið reyndi þegar félagið kvartaði yfir synjun ráðuneytisins með vísan til neikvæðrar umsagnar sveitarstjórnar í því sveitarfélagi sem um ræðir. Jörðin þar sem félagið hugðist stofna lögbýli er skilgreind sem landbúnaðarsvæði og sneri ágreiningurinn meðal annars að því hvort hundahald fyrir hundasleðaferðir gæti talist til landbúnaðar.

Umboðsmaður bendir í úrskurði sínum á að ráðherra sé ekki bundinn af umsögn sveitarstjórnar heldur beri ráðherra að leggja sjálfstætt mat á málsatvik og upplýsa það með fullnægjandi hætti.

Afstaða ráðuneytisins um að umrædd starfsemi geti ekki talist til landbúnaðar byggði á því að hundar félagsins væru ekki búfé. Umboðsmaður bendir hins vegar í úrskurði sínum á að hugtakið búfé sé ekki skilgreint í þeim heimildum sem helst reyni á. Merking hugtaksins sé matskennd.

Taldi umboðsmaður að ráðuneytið hefði ekki lagt fullnægjandi mat á það hvort áformuð starfsemi félagsins gæti talist sem landbúnaður og þar með hvort félagið hygðist halda búfé. Málið hafi ekki verið upplýst nægilega vel til að meta áhrif starfseminnar á búrekstur nærliggjandi jarða. Þannig hafi ráðuneytið til að mynda ekki kannað hvort áhyggjur annarra landeigenda af fyrirhugaðri starfsemi væru á rökum reistar. Hefur umboðsmaður því beint því til ráðuneytisins að taka málið til meðferðar að nýju




Fleiri fréttir

Sjá meira


×