Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélög þess í matvælaframleiðslu hafa ákveðið að gefa fólki í neyð hér á landi matvöru fram til jóla sem samsvarar 40 þúsund máltíðum.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag þar sem rætt er við Þórólf Gíslason kaupfélagsstjóra. Hann segir að víða kreppi nú að í þjóðfélaginu og að kaupfélagið hafi því ákveðið að gefa matvælin í viðleitni sinni til að aðstoða fólk sem eigi í tímabundnum erfiðleikum vegna kórónuveirunnar og afleiðinga hennar.
Mikilvægt sé að landsmenn standi saman í þeirri baráttu. Þórólfur segist ekki vilja slá á verðmæti matvörunnar en undirstrika að um hágæða matvöru sé að ræða, en ekki mat sem sé kominn á síðasta söludag. Í blaðinu segir einnig að á næstu dögum verði unnið að því að skipuleggja dreifingu matvörunnar en hjálparstofnunum verður falið að koma matnum til þeirra sem á þurfi að halda.
Himnasending
Þá er einnig rætt við Ásgerði Jónu Flosadóttur formann Fjölskylduhjálparinnar sem segir gjöf kaupfélagsins algjöra himnasendingu, enda sé um stærstu matargjöf allra tíma að ræða hér á landi. Þörfin sé gríðarleg og að hún aukist dag frá degi. Ásgerður segist einnig vona að gjöf kaupfélagsins verði öðrum fyrirtækjum hvatning til að gefa til bágstaddra.