Glæpasagan jafn merkilegt bókmenntaform og hvað annað Jakob Bjarnar skrifar 1. nóvember 2020 09:00 Ragnar Jónasson rithöfundur sem nefndur hefur verið prinsinn í hópi íslenskra glæpasagnahöfunda. visir/vilhelm Hver er besta bókin þín? „Alltaf nýjasta bókin,“ svarar Ragnar Jónasson rithöfundur brattri spurningu blaðamanns Vísis. Hann lætur sér hvergi bregða. „Og … jú. Ætli Dimma sé ekki í mestu uppáhaldi hjá mér. Hún er óvenjuleg. Þess vegna sem ég held mikið uppá hana. Annars er maður vonandi að batna með hverri bók. Nýjasta bókin, já og næsta bók.“ Næsta bók? Það er nú varla hægt að leggja mælistiku á hana fyrr en… eða, ertu kannski byrjaður á henni? „Jájá, ég sit við og skrifa hana núna. Hún er langt komin. Hún er eiginlega að verða búin.“ Þarna varð óvænt vending. Með suði tekst blaðamanni að fiska upp úr Ragnari titil bókarinnar, sem er Úti. „Tekinn úr ljóði sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum og tókst að teygja það upp í bók.“ Gerir tilkall til krúnunnar Þegar Ragnar kom fyrst fram á sjónarsviðið 2009, með sína fyrstu bók sem ber titilinn Fölsk nóta, hafði glæpasagnafárið á Íslandi staðið yfir í það minnsta áratug. Ýmsir voru þá farnir að horfa til þess að það hlyti að fara að sljákka í þessu æði en þá höfðu krimmarnir einokað bóksölulista svo mjög að mörgum unnendum fagurbókmennta þótti nóg um. En Ragnar lét það ekki trufla sig og síðan er liðinn rúmur áratugur til og ekkert lát á vinsældum glæpasögunnar. Fyrir á fleti voru þau Arnaldur Indriðason og Yrsa Sigurðardóttir, kóngur og drottning bóksölulistana sem árlega sendu og senda frá sér krimma sem þyrstir lesendur gleypa í sig. Fjölmargir aðrir höfðu reynt fyrir sér á þessu sviði og ýmsir átt góðu gengi að fagna. En Ragnar hefur hratt og örugglega gert sig gildandi og nú er talað um þríeykið, (nei, ekki það þríeyki), heldur glæpasagnaþríeykið hvar Ragnari er, af útgefendum og fjölmiðlum, stillt upp sem prinsinn á markaði og að hætti prinsa hlýtur hann að gera tilkall til krúnunnar. Svo staðan á íslenskum höfundamarkaði sé sett í dramatískan búning og ævintýralegan búning. Annt um siglfirskan uppruna sinn Ragnar er nú að senda frá sér sína 12. bók. Sem heitir Vetrarmein. Titillinn er fenginn að láni frá afa hans og nafna Þ. Ragnari Jónassyni (1913-2003) en bókin hefst á tilvitnun í grein eftir hann: „Þá eru bætt öll vetrarmein.“ Þ. Ragnar Jónasson (1913–2003) Aftur kemur vor í dal (Siglfirskir söguþættir) „Þetta er úr grein eftir afa minn, Aftur kemur vor í dal, en hann skrifaði mikið um Siglufjörð alla sína ævi.“ Hinn skandinavíski krimmi hefur átt góðu gengi að fagna um heim allan. Ragnar kemur úr eilítið annarri átt en hefðbundnir norrænir glæpasagnahöfundar, hann lítur ekki eins mikið til samfélagslegra þátta né heldur eru persónur hans miðaldra og alkóhólíseraðir lögreglumenn. Hann lítur til Bretlands og ráðgátuglæpasögunnar. visir/vilhelm Ljóst er að Ragnari er annt um arfleið sína og segir svo frá að afi hans hafi alla tíð fengist við skriftir og svo fór að lokum að eftir hann komu út fimm bækur, en allar eftir að hann varð áttræður. „Hann var að vinna í öðru, bæjargjaldkeri í Siglufirði og mjólkurfræðingur. En skrifaði í frítímanum. Hann átti stærsta bókasafn sem ég hafði séð en það var mikil menning á heimilinu. Pabbi og bróðir hans, Ólafur bókaútgefandi heitinn, drógu skrifin upp úr skúffunni hjá honum og það náðist að koma því út áður en hann dó um nírætt. Hann var þá formlega rithöfundur en seint á ævinni. Þessi titill er fenginn úr frábærri grein sem hann skrifaði fyrir áratugum þegar hann var að lýsa vetrarsólhvörfum og hvernig sólin kemur aftur eftir að hún hverfur í desember og birtist aftur 28. janúar.“ Þaulskipulagður rithöfundur Tólf skáldsögur á rétt rúmum áratug, það þýðir að menn þurfa að halda vel á spöðunum. Ragnar gengst fúslega við því að mega teljast vel skipulagður. „Já, ég er frekar skipulagður. Sem er eina leiðin til að láta þetta ganga upp. Vetrarmein var tilbúin í janúar. En það var meðal annars vegna þess að hún þurfti að fara í þýðingu á frönsku. Hún kom út í Frakklandi áður en hún kom út á Íslandi. Þannig að, já, ég nenni ekkert að sitja auðum höndum. Mér finnst gaman að skrifa. Bókin er löngu tilbúin.“ Spurður hvernig það sé að fylgja eftir bók sem er löngu tilbúin og frágengin af hans hálfu segir hann það ekki vandkvæðum bundið. „Það er þokkalegt,“ segir Ragnar. „Ég var í viðtali á Spáni um síðustu helgi en þar var ég að fylgja eftir bók sem ég skrifaði 2011. Ég átti í mesta basli með að muna smáatriði úr henni þegar spurt var út í það. Þannig að þetta er létt í þeim samanburði.“ Ragnar er að vinna fulla vinnu samhliða skriftum. Og segir að sú sé einnig ástæðan fyrir því að hann þurfi að vera skipulagður. Ragnar starfar hjá Arionbanka. „Ég er í því sem heitir fyrirtækjaráðgjöf. Við vinnum við að kaupa og selja fyrirtæki og hjálpa þeim að fjármagna sig. Þetta er skemmtilegt starf en krefjandi. Aldrei friður þar þannig að þetta er púsluspil.“ En hvernig fer þetta saman? „Ágætlega, þetta er svona … maður þarf að skipuleggja sig mjög vel. Það er ekki hægt að slaka á. Og þetta verður stundum mikið álag. Að koma bókunum að eftir langan vinnudag. En þetta er það sem manni þykir skemmtilegast að gera þannig að ég myndi hvort eða er vera að gera þetta með einum hætti eða öðrum. Frekar að vinnan bitni á því að maður sinnir ekki þessum hliðarverkum sem fylgja því að bækur mínar hafa komið út í fjörutíu löndum á þrjátíu tungumálum.“ Nánast vonlaust að lifa af bóksölu á Íslandi Eins og áður sagði hefur Ragnar átt að fagna mikilli velgengni og spurður segist hann ekki hafa getað svo mikið sem ímyndað sér að svo vel myndi ganga. „Ég hefði verið glaður að sjá bók eftir mig á einu tungumáli. En nú hef ég varla hillupláss fyrir allar bækurnar. Þær koma hingað í kassavís á fjölmörgum tungumálum. En það er lúxusvandamál.“ Vegur höfundarins Ragnars utan landsteina hefur farið mjög vaxandi og hafa bækur hans verið gefnar út í fjörutíu löndum, á þrjátíu tungumálum.visir/vilhelm Ýmsir íslenskir rithöfundar sem hafa gert sig gildandi hafa samhliða ritstörfum gegnt fullu starfi á öðrum vettvangi. Þar má til dæmis nefna Yrsu, Ólaf Jóhann Ólafsson og fleiri höfunda. Án ábyrgðar er því slegið fram að þetta hljóti að vera eitthvað séríslenskt. „Já, örugglega.“ En, hvað veldur því? „Það er svo erfitt að lifa af þessu á Íslandi, eiginlega ómögulegt nema með mikilli elju, miklum fórnum, því þetta er svo lítill markaður. Þannig að þetta er einskonar sjálfsbjargarviðleitni. Að menn vilji hafa eitthvað annað; eitthvað til að lifa á. Því það má ekki mikið út af bregða, ef þú vilt lifa af því að selja bækur á Íslandi. Þó þú sért með mest seldu bókina árum saman. Öðru máli gegnir til dæmis í Þýskalandi eða Svíþjóð.“ Þannig er varla um annað að ræða, vilji menn sinna skriftum, að gera það samhliða annarri atvinnu. Þetta litast af því að búa í litlu landi og skrifa fyrir lítið málsvæði. Tómt mál er um að tala að ætla sér að lifa á bóksölu einni saman. Sá hinn sami væri þá með tekjur sem eru langt undir öllum framfærsluviðmiðum. Sem helgast meðal annars af hinu smáa málsvæði. „Það er gjaldið fyrir að skrifa á íslensku. En við njótum þess á móti að þetta er magnaður heimur sem við erum að vinna með og mikil bókmenntasaga sem hjálpar okkur.“ En Ragnar kvartar ekki. Hann segir þetta persónubundið. Sjálfun finnst honum fínt að fara í vinnuna, brjóta upp daginn og hitta fólk. „Ég er ekkert viss um að ég kæmi meiru í verk ef ég væri bara að skrifa.“ Líður illa ef hann getur ekki skrifað Fyrir utan að gegna fullu starfi hjá bankanum, senda árlega frá sér bók er Ragnar fjölskyldumaður, hann og eiginkona hans María Margrét Jóhannsdóttir eiga tvær dætur. Fjölskyldan eru í forgangi, henni þarf að sinna fyrst, þá vinnunni og svo bókunum. En allt hangir þetta þó á einni og sömu spýtunni. „Það væri freistandi að svara öllum tölvupóstum dagsins úr öllum heimshornum frá fólki sem vill spyrja mig út í eitt og annað sem snýr að bókunum. En það fer aftast í röðina. Skilar sér þó að lokum. En, fyrst er að skrifa næstu bók, ef ég skrifa ekki þá líður mér illa og þá hrynur allt hitt. Ef ég ætlaði að eyða heilu ári í að svara blaðamönnum og kynna bækurnar þá fer undirstaðan sem allt byggir á.“ Ragnar lýsir því jafnframt að það taki á andlega að skrifa. Hann skrifar að jafnaði nokkur hundruð orð á dag, nóg til að bók sé tilbúin einu sinni á ári. Það sé tiltölulega einfalt reikningsdæmi og hann stillir sig af með það. En, varðandi hið séríslenska fyrirbæri, ef við gefum okkur að svo sé með að fólk fáist við skriftir samhliða því að gegna fullu starfi, þá hljóta skrifin að spretta af mikilli þörf? „Jájá, mér líður hreinlega illa ef ég get ekki verið að skrifa. Ég tek mér frí á sumrin, er þá að lesa og svo skrifa eitthvað annað. Til dæmis smásögur og ljóð. Ég bý mér til hliðarverkefni. Til að hafa eitthvað skemmtilegt að skapa. Ég skrifaði til dæmis smásögu með Víkingi Heiðari sem var ákaflega skemmtilegt verkefni. Ég myndi finna mér eitthvað að gera,“ segir Ragnar en ljóst að iðjuleysið á ekki við hann. Ofurvenjuleg aðalpersóna í krimma Það sem meðal annars vekur eftirtekt við lestur hinnar nýju bókar er kristaltær og áreynslulítill stíll Ragnars. Hann segist spurður hafa fengist við skriftir alveg frá því að hann man eftir sér. Bókstaflega. „Ég sat við hjá pabba og afa og ömmu og var hvattur til að skrifa. Ég losna ekkert frá þessu.“ Og það skilar sér. Penninn leikur í lúkum Ragnars. Sögusvið hinnar nýju bókar er Siglufjörður sem Ragnar segir ákjósanlega umgjörð fyrir glæpasögu. Sem hann þekki mæta vel. Hann hefur nú bara þetta árið farið þangað í sex eða sjö skipti. En þar ólst faðir hans upp. Fallegt og einangrað sögusvið. Ragnar hefur áður skrifað bækur þar sem Ari Þór Arason lögreglumaður er aðalpersóna. Fimm nánar tiltekið. „Svo kom þessi óvænt í lokin. Hún hafði blundað í mér, þessi eina saga og mér fannst ég skulda persónunni að loka þessu með hann.“ Ragnar Jónasson segir nánast vonlaust að framfleyta sér með bóksölu á Íslandi einni saman. Hann gegnir fullu starfi samhliða sínum rithöfundaferli en hann er ekkert viss um að hann myndi skrifa meira ef hann væri í því eingöngu.visir/vilhelm Ari Þór er ekki mjög afgerandi persóna og lesandann (þennan sem hér skrifar í það minnsta) langar stundum að stugga við honum. Sem á einhvern undarlegan hátt setur kraft í frásögnina. Ragnar segir Ara vera andlagið við þekktar glæpasagnapersónur svo sem úr Wallander; miðaldra og drukknir. Hann komi úr gagnstæðri átt, náunginn í næsta húsi, ofurvenjulegur strákur. Blússandi sigling utan landsteina Velgengnin utan landsteina hefur ekki látið á sér standa. Ragnar náði nýverið toppi metsölulista Der Spiegel í Þýskalandi. Honum hefur gengið vel í Frakklandi og Svíþjóð en bækur hans hafa ekki enn komið út í Finnalandi, Danmörku og Noregi. Það verður á næsta ári. „Við vorum að selja bókarétt til Noregs og Rússlands um síðustu helgi. Skandinavía, ég á eftir að upplifa það en tikka í öll önnur box. Bækur mínar hafa komið út í mörg ár í Bandaríkjunum og það hefur gengið mjög vel.“ Einhverju sinni heyrði ég það sagt að ef menn næðu að brjóta undir sig Bandaríkin væri björninn unninn. Það væri fyrirheitna landið? „Já, en bóksalan þar hefur ekki verið á sama skala og í Þýskaland og Frakklandi. Enn eru tækifæri í Bandaríkjunum, en þau eru miklu erfiðari hvað varðar þýddar bækur; þær ná ekki eins mikilli sölu þar.“ En hvað er það sem virkar svona vel á Þjóðverja og Frakka? „Ísland og umhverfið. Sem hefur lengi heillað Þjóðverja. Það er jafnan fyrsta landið sem íslenskar bækur koma út í. Þar lesa menn mikið af þýddum bókum. Að einhverju leyti gildir það sama um Frakkland. Þeir virðast opnir. Til dæmis með Dimmu, sem ég nefndi fyrr, þar eru brotnar nokkrar reglur í glæpasagnagerð. En virðist ganga vel í Þjóðverja og Frakka. Sem er mjög gaman, að lesendur kunni að vel að meta það að bækur fari aðeins út fyrir kassann. Ég er sérlega ánægður með að þannig bækur gangi vel, þar sem maður tekur áhættu. Auðveldar að skrifa inn í formúlu. Í einu landi, sem ég ætla ekki að segja hvað var, vildi útgefandinn breyta endinum. Láta þetta enda vel. En ég stoppaði það,“ segir Ragnar og ljóst að honum þótti þar heldur sneiðast af um hvað höfundar hafi að segja um eigin verk. Persónusköpunin ræður úrslitum En þá er komið að því sem óhjákvæmilegt er að bera undir Ragnar sem er að deildar meiningar eru um bókmenntalegt gildi glæpasögunnar. Um vinsældir þeirrar bókmenntagreinar þarf ekki að deila en því hefur verið fleygt að þetta séu formúlubækur, nánast eins og að mála mynd eftir númerum. Ragnar er á öðru máli. „Mér finnst mikið varið í vel heppnaða glæpasögu. En þær eru eins misjafnar og fjöldi þeirra sem eru að skrifa þær. Formúlubækur og ekki formúlubækur, það getur í sjálfu sér átt við um hvaða bókmenntagrein sem er. Fátt er skemmtilegra að lesa en góða glæpasögu. Margar af bestu bókmenntum sem við þekkjum, sem þá eru ekki flokkaðar sem glæpasögur, eru með glæp í bakgrunninum. Þetta knýr góða sögu áfram. Glæpur er eins og hvert annað tæki sem rithöfundur notar til að búa til sögu, framvindu og að sagan sé um eitthvað; alvarleg átök.“ Glæpasögur með snjallri fléttu eru ómetanlegar en þó er það ekki atriðið sem gerir góða glæpasögu góða, að mati Ragnars. Það er persónusköpunin. „Ef karakterarnir eru flatir virkar bókin ekki. Þú þarft að tengja við persónur, og þú ert alltaf að skrifa um fólk. Og hvernig það bregst við aðstæðum, harmleik. Og svo virðist vera að bókin nái til fleiri ef hún er titluð glæpasaga. En bókin ætti ekki að dæmast fyrir fram út frá því. Þó einhver útgefandi hafi ákveðið að kalla þær það. Ég bara skrifa bækur.“ Lærisveinn P.D. James og Agöthu En er ekki svo að í glæpasögu þá er áherslan á plottið, persónusköpunin er í öðru sæti? „Nei, ekki finnst mér það. Plottið þarf vissulega að virka og þú ert svikinn sem lesandi ef þú lest glæpasögu og plottið gengur ekki upp. En eins og til dæmis P.D. James, en ég kynntist henni áður en hún dó – hún er einn af mínum uppáhalds rithöfundum – segir: að vel skrifuð leynilögreglusaga geti geti flokkast sem góð hefðbundin skáldsaga og tvímælalaust verið jafn mikilvæg. Ragnar Jónasson náði að kynnast einni af drottningum glæpasagnanna, sjálfri P.D. James, áður en hún lést. Hann segir hana hafa verið einstaklega viðkunnanlega og sannarlega fyrirmynd hvað sig varði.visir/vilhelm Bækur hennar eru skemmtilega strúktúeraðar en þetta var samt alltaf um fólkið, saga einhvers manns eða persóna sem eru að takast á við eitthvað. Hún orðaði það svo við mig að glæpasagan væri tæki til að skoða mannlífið og hvernig fólk bregst við slíkum atburðum. Já, hún er í miklu uppáhaldi hjá mér.“ Ragnar fór og hitti P.D. James árið 2010, ári eftir að hann sendi sjálfur frá sér sína fyrstu bók og gott betur; skrifaði við hana viðtal sem birtist í Morgunblaðinu. „Bækur hennar þykja einstök blanda af sakamálasögum og dramatískum skáldsögum, enda er hún margverðlaunuð fyrir verk sín.“ segir þar en P.D. James stóð þá á níræðu. Íslendingar þekkja líklega best bækur hennar um Dagliesh lögregluforingja en gerðir voru sjónvarpsþættir upp úr þeim. Þá hafa bækur eftir P.D. James verið þýddar á íslensku. Ragnar er þannig af enska skólanum í glæpasagnagerð sinni, þeim sem kenndur er við mistery eða ráðgátusögur. Áður en Ragnar fór að skrifa sjálfur þýddi hann sögur Agöthu Christie. „Ég lærði hjá Agöthu. Hún er frábær og eldist vel. Agatha Christie er mun dekkri en menn halda en söguflétturnar eru auðvitað frábærar. Erfitt að toppa þær, hvernig hún nær að leika á lesandann með einföldum hætti en frábærum, þegar þú veist svarið. Eitt orð eða ein setning sem snýr svo öllu á haus. Hún er hin fullkomna hugmynd um glæpasögu, maður er alltaf að reyna að ná henni. Og P.D. James. Ég er að reyna að ná þeim.“ Ian Rankin og Dan Brown og þeir félagarnir Ragnar á að kunningjum og vinum ýmsa heimsþekkta rithöfunda, P.D. James segir Ragnar að hafi verið einstaklega yndislega og áhugaverða manneskju, sem náði að setja glæpasöguna í annað samhengi. „Já, Ian Rankin og Dan Brown, það er gaman að þekkja svona góða menn,“ segir Ragnar þegar blaðamaður forvitnast um frægðarinnar fólkið sem hann á í reglulegum samskiptum við. Ragnar segir að þetta sé þannig til komið að hann og Yrsa fari mikið út fyrir landsteinana saman. „Hún var dugleg að kynna mig fyrir þessum hátíðum, draga mig til útlanda til að kynna bækurnar. Ég mætti oft á bókahátíðir með engar bækur, bara þá von að einhver myndi taka eftir mér, það tókst að lokum.“ En nú hafa spennusögurnar einokað bóksölulistana í um kvartöld, er ekki hætt við að þær séu að taka frá því sem við köllum fagurbókmenntir? „Nei, ég held að allt þetta hjálpi hvert öðru. Vonandi er þetta ekki ein kaka sem menn taka sér sneið af og svo klárast hún. Þeim mun fleiri bækur sem Íslendingar selja erlendis þeim mun fleiri dyr opnast fyrir aðra höfunda, sem er svo lykillinn að geta lifað af þessu.“ Bóksölulistarnir skipta máli Tólf spennusögur á rúmum áratug. Þú hefur fengist við smásagnagerð og það að semja ljóð. Hefur einhvern tíma flökrað að þér að reyna þig við skáldsagnagerð, þá af því taginu sem myndi flokkast sem fagurbókmenntir? „Jájá, það hefur alveg hvarflað að mér og ég var með eina slíka hugmynd í kollinum fyrir nokkrum árum, sem ekki er komin á blað. En ég kannski fæ útrás fyrir slíkan skáldskap í smásögum og ljóðum. Ennþá. Málið er að ég hef svo gaman að lesa og skrifa glæpasögur. Helsta áhugamál mitt er að finna góða glæpasögu. Ragnar Jónasson segir að frekar um að ræða samkeppni milli útgefenda en höfunda hvað varðar sæti á bóksölulistum.visir/vilhelm Það gefur mér svo mikið og meðan ég er með hugmyndir langar mig að koma þeim frá mér. Ég er með nokkrar góðar hugmyndir sem ég tími ekki að sleppa höndinni af. Þegar ég fæ ekki aðrar skrifa ég eitthvað annað og hef svo sem alveg gert. Þetta þróast einhvern veginn,“ segir Ragnar. Helst er á honum að skilja að hann telji ekki aðkallandi að sinna þessu tiltekna kalli. Helsti hasarinn í tengslum við jólabókaflóðið eru bóksölulistarnir. Eru þeir eitthvað sem þú horfir spenntur til, hlýtur það ekki að vera? „Þetta er góð spurning. Jú, en það tengist þá því kappsmáli að Íslendingar lesi bækurnar og hafi gaman að þeim. Skiptir kannski ekki öllu máli hvar á lista þær eru en ef maður fær góð viðbrögð, þá er það mikilvægast. Auðvitað gefa metsölulistarnir vísbendingar, en það getur gefið manni alveg jafn mikið að fá kveðju og að lesa einhvern metsölulista. En listarnir eru auðvitað staðfesting á því að fólk sé ánægt með þetta, og þá vill maður halda áfram að skrifa. Ég skrifa á íslensku fyrir Íslendinga, bækurnar eru skrifaðar inn í þennan heim sem maður býr í dagsdaglega.“ Slagurinn er milli útgefenda Ber svo að skilja að þetta sé ekki keppni milli ykkar höfundanna? Svo mikið er víst að útgefendurnir rýna sig rauðeyga þegar listarnir koma út og leggja mikið uppúr þeim? „Já, útgefendur kljást, eins og eðlilegt er. Það er bara heilbrigð samkeppni. En við Yrsa erum til dæmis mjög góðir vinir og höfum aldrei rifist um metsölulistana. Arnald þekki ég minna en af mjög góðu einu. Já, samkeppnin er meiri meðal útgefenda ef ég á að vera hreinskilinn.“ Sem Ragnar segir að sé ekkert annað en gaman. „Öll samkeppni stuðlar að því að menn skrifi meira, gefi meira út og fólk lesi meira sem er hið endanlega markmið. Tali um bækur og muni eftir þeim. Það er ekki sjálfgefið á Íslandi. Jólabókaflóðið er mikilvægt og viðheldur þessum markaði. Ef það væri ekki til staðar, þessi samkeppni fyrir jólin, værum við fátækari af titlum og höfundum.“ Höfundatal Bókaútgáfa Bókmenntir Fjallabyggð Mest lesið Pitt og Jolie loksins skilin Lífið Orri Steinn og Sylvía Rós eiga von á stúlku Lífið „Gæti stofnað nýjan stjórnmálaflokk og búið til podcast þátt“ Lífið Herra Hnetusmjör með stærsta lag ársins Tónlist Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Lífið Angus MacInnes er látinn Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Æskudraumurinn varð að veruleika Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Jólaboð Evu: Kalkúnabringur með öllu tilheyrandi Matur Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira
Hver er besta bókin þín? „Alltaf nýjasta bókin,“ svarar Ragnar Jónasson rithöfundur brattri spurningu blaðamanns Vísis. Hann lætur sér hvergi bregða. „Og … jú. Ætli Dimma sé ekki í mestu uppáhaldi hjá mér. Hún er óvenjuleg. Þess vegna sem ég held mikið uppá hana. Annars er maður vonandi að batna með hverri bók. Nýjasta bókin, já og næsta bók.“ Næsta bók? Það er nú varla hægt að leggja mælistiku á hana fyrr en… eða, ertu kannski byrjaður á henni? „Jájá, ég sit við og skrifa hana núna. Hún er langt komin. Hún er eiginlega að verða búin.“ Þarna varð óvænt vending. Með suði tekst blaðamanni að fiska upp úr Ragnari titil bókarinnar, sem er Úti. „Tekinn úr ljóði sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum og tókst að teygja það upp í bók.“ Gerir tilkall til krúnunnar Þegar Ragnar kom fyrst fram á sjónarsviðið 2009, með sína fyrstu bók sem ber titilinn Fölsk nóta, hafði glæpasagnafárið á Íslandi staðið yfir í það minnsta áratug. Ýmsir voru þá farnir að horfa til þess að það hlyti að fara að sljákka í þessu æði en þá höfðu krimmarnir einokað bóksölulista svo mjög að mörgum unnendum fagurbókmennta þótti nóg um. En Ragnar lét það ekki trufla sig og síðan er liðinn rúmur áratugur til og ekkert lát á vinsældum glæpasögunnar. Fyrir á fleti voru þau Arnaldur Indriðason og Yrsa Sigurðardóttir, kóngur og drottning bóksölulistana sem árlega sendu og senda frá sér krimma sem þyrstir lesendur gleypa í sig. Fjölmargir aðrir höfðu reynt fyrir sér á þessu sviði og ýmsir átt góðu gengi að fagna. En Ragnar hefur hratt og örugglega gert sig gildandi og nú er talað um þríeykið, (nei, ekki það þríeyki), heldur glæpasagnaþríeykið hvar Ragnari er, af útgefendum og fjölmiðlum, stillt upp sem prinsinn á markaði og að hætti prinsa hlýtur hann að gera tilkall til krúnunnar. Svo staðan á íslenskum höfundamarkaði sé sett í dramatískan búning og ævintýralegan búning. Annt um siglfirskan uppruna sinn Ragnar er nú að senda frá sér sína 12. bók. Sem heitir Vetrarmein. Titillinn er fenginn að láni frá afa hans og nafna Þ. Ragnari Jónassyni (1913-2003) en bókin hefst á tilvitnun í grein eftir hann: „Þá eru bætt öll vetrarmein.“ Þ. Ragnar Jónasson (1913–2003) Aftur kemur vor í dal (Siglfirskir söguþættir) „Þetta er úr grein eftir afa minn, Aftur kemur vor í dal, en hann skrifaði mikið um Siglufjörð alla sína ævi.“ Hinn skandinavíski krimmi hefur átt góðu gengi að fagna um heim allan. Ragnar kemur úr eilítið annarri átt en hefðbundnir norrænir glæpasagnahöfundar, hann lítur ekki eins mikið til samfélagslegra þátta né heldur eru persónur hans miðaldra og alkóhólíseraðir lögreglumenn. Hann lítur til Bretlands og ráðgátuglæpasögunnar. visir/vilhelm Ljóst er að Ragnari er annt um arfleið sína og segir svo frá að afi hans hafi alla tíð fengist við skriftir og svo fór að lokum að eftir hann komu út fimm bækur, en allar eftir að hann varð áttræður. „Hann var að vinna í öðru, bæjargjaldkeri í Siglufirði og mjólkurfræðingur. En skrifaði í frítímanum. Hann átti stærsta bókasafn sem ég hafði séð en það var mikil menning á heimilinu. Pabbi og bróðir hans, Ólafur bókaútgefandi heitinn, drógu skrifin upp úr skúffunni hjá honum og það náðist að koma því út áður en hann dó um nírætt. Hann var þá formlega rithöfundur en seint á ævinni. Þessi titill er fenginn úr frábærri grein sem hann skrifaði fyrir áratugum þegar hann var að lýsa vetrarsólhvörfum og hvernig sólin kemur aftur eftir að hún hverfur í desember og birtist aftur 28. janúar.“ Þaulskipulagður rithöfundur Tólf skáldsögur á rétt rúmum áratug, það þýðir að menn þurfa að halda vel á spöðunum. Ragnar gengst fúslega við því að mega teljast vel skipulagður. „Já, ég er frekar skipulagður. Sem er eina leiðin til að láta þetta ganga upp. Vetrarmein var tilbúin í janúar. En það var meðal annars vegna þess að hún þurfti að fara í þýðingu á frönsku. Hún kom út í Frakklandi áður en hún kom út á Íslandi. Þannig að, já, ég nenni ekkert að sitja auðum höndum. Mér finnst gaman að skrifa. Bókin er löngu tilbúin.“ Spurður hvernig það sé að fylgja eftir bók sem er löngu tilbúin og frágengin af hans hálfu segir hann það ekki vandkvæðum bundið. „Það er þokkalegt,“ segir Ragnar. „Ég var í viðtali á Spáni um síðustu helgi en þar var ég að fylgja eftir bók sem ég skrifaði 2011. Ég átti í mesta basli með að muna smáatriði úr henni þegar spurt var út í það. Þannig að þetta er létt í þeim samanburði.“ Ragnar er að vinna fulla vinnu samhliða skriftum. Og segir að sú sé einnig ástæðan fyrir því að hann þurfi að vera skipulagður. Ragnar starfar hjá Arionbanka. „Ég er í því sem heitir fyrirtækjaráðgjöf. Við vinnum við að kaupa og selja fyrirtæki og hjálpa þeim að fjármagna sig. Þetta er skemmtilegt starf en krefjandi. Aldrei friður þar þannig að þetta er púsluspil.“ En hvernig fer þetta saman? „Ágætlega, þetta er svona … maður þarf að skipuleggja sig mjög vel. Það er ekki hægt að slaka á. Og þetta verður stundum mikið álag. Að koma bókunum að eftir langan vinnudag. En þetta er það sem manni þykir skemmtilegast að gera þannig að ég myndi hvort eða er vera að gera þetta með einum hætti eða öðrum. Frekar að vinnan bitni á því að maður sinnir ekki þessum hliðarverkum sem fylgja því að bækur mínar hafa komið út í fjörutíu löndum á þrjátíu tungumálum.“ Nánast vonlaust að lifa af bóksölu á Íslandi Eins og áður sagði hefur Ragnar átt að fagna mikilli velgengni og spurður segist hann ekki hafa getað svo mikið sem ímyndað sér að svo vel myndi ganga. „Ég hefði verið glaður að sjá bók eftir mig á einu tungumáli. En nú hef ég varla hillupláss fyrir allar bækurnar. Þær koma hingað í kassavís á fjölmörgum tungumálum. En það er lúxusvandamál.“ Vegur höfundarins Ragnars utan landsteina hefur farið mjög vaxandi og hafa bækur hans verið gefnar út í fjörutíu löndum, á þrjátíu tungumálum.visir/vilhelm Ýmsir íslenskir rithöfundar sem hafa gert sig gildandi hafa samhliða ritstörfum gegnt fullu starfi á öðrum vettvangi. Þar má til dæmis nefna Yrsu, Ólaf Jóhann Ólafsson og fleiri höfunda. Án ábyrgðar er því slegið fram að þetta hljóti að vera eitthvað séríslenskt. „Já, örugglega.“ En, hvað veldur því? „Það er svo erfitt að lifa af þessu á Íslandi, eiginlega ómögulegt nema með mikilli elju, miklum fórnum, því þetta er svo lítill markaður. Þannig að þetta er einskonar sjálfsbjargarviðleitni. Að menn vilji hafa eitthvað annað; eitthvað til að lifa á. Því það má ekki mikið út af bregða, ef þú vilt lifa af því að selja bækur á Íslandi. Þó þú sért með mest seldu bókina árum saman. Öðru máli gegnir til dæmis í Þýskalandi eða Svíþjóð.“ Þannig er varla um annað að ræða, vilji menn sinna skriftum, að gera það samhliða annarri atvinnu. Þetta litast af því að búa í litlu landi og skrifa fyrir lítið málsvæði. Tómt mál er um að tala að ætla sér að lifa á bóksölu einni saman. Sá hinn sami væri þá með tekjur sem eru langt undir öllum framfærsluviðmiðum. Sem helgast meðal annars af hinu smáa málsvæði. „Það er gjaldið fyrir að skrifa á íslensku. En við njótum þess á móti að þetta er magnaður heimur sem við erum að vinna með og mikil bókmenntasaga sem hjálpar okkur.“ En Ragnar kvartar ekki. Hann segir þetta persónubundið. Sjálfun finnst honum fínt að fara í vinnuna, brjóta upp daginn og hitta fólk. „Ég er ekkert viss um að ég kæmi meiru í verk ef ég væri bara að skrifa.“ Líður illa ef hann getur ekki skrifað Fyrir utan að gegna fullu starfi hjá bankanum, senda árlega frá sér bók er Ragnar fjölskyldumaður, hann og eiginkona hans María Margrét Jóhannsdóttir eiga tvær dætur. Fjölskyldan eru í forgangi, henni þarf að sinna fyrst, þá vinnunni og svo bókunum. En allt hangir þetta þó á einni og sömu spýtunni. „Það væri freistandi að svara öllum tölvupóstum dagsins úr öllum heimshornum frá fólki sem vill spyrja mig út í eitt og annað sem snýr að bókunum. En það fer aftast í röðina. Skilar sér þó að lokum. En, fyrst er að skrifa næstu bók, ef ég skrifa ekki þá líður mér illa og þá hrynur allt hitt. Ef ég ætlaði að eyða heilu ári í að svara blaðamönnum og kynna bækurnar þá fer undirstaðan sem allt byggir á.“ Ragnar lýsir því jafnframt að það taki á andlega að skrifa. Hann skrifar að jafnaði nokkur hundruð orð á dag, nóg til að bók sé tilbúin einu sinni á ári. Það sé tiltölulega einfalt reikningsdæmi og hann stillir sig af með það. En, varðandi hið séríslenska fyrirbæri, ef við gefum okkur að svo sé með að fólk fáist við skriftir samhliða því að gegna fullu starfi, þá hljóta skrifin að spretta af mikilli þörf? „Jájá, mér líður hreinlega illa ef ég get ekki verið að skrifa. Ég tek mér frí á sumrin, er þá að lesa og svo skrifa eitthvað annað. Til dæmis smásögur og ljóð. Ég bý mér til hliðarverkefni. Til að hafa eitthvað skemmtilegt að skapa. Ég skrifaði til dæmis smásögu með Víkingi Heiðari sem var ákaflega skemmtilegt verkefni. Ég myndi finna mér eitthvað að gera,“ segir Ragnar en ljóst að iðjuleysið á ekki við hann. Ofurvenjuleg aðalpersóna í krimma Það sem meðal annars vekur eftirtekt við lestur hinnar nýju bókar er kristaltær og áreynslulítill stíll Ragnars. Hann segist spurður hafa fengist við skriftir alveg frá því að hann man eftir sér. Bókstaflega. „Ég sat við hjá pabba og afa og ömmu og var hvattur til að skrifa. Ég losna ekkert frá þessu.“ Og það skilar sér. Penninn leikur í lúkum Ragnars. Sögusvið hinnar nýju bókar er Siglufjörður sem Ragnar segir ákjósanlega umgjörð fyrir glæpasögu. Sem hann þekki mæta vel. Hann hefur nú bara þetta árið farið þangað í sex eða sjö skipti. En þar ólst faðir hans upp. Fallegt og einangrað sögusvið. Ragnar hefur áður skrifað bækur þar sem Ari Þór Arason lögreglumaður er aðalpersóna. Fimm nánar tiltekið. „Svo kom þessi óvænt í lokin. Hún hafði blundað í mér, þessi eina saga og mér fannst ég skulda persónunni að loka þessu með hann.“ Ragnar Jónasson segir nánast vonlaust að framfleyta sér með bóksölu á Íslandi einni saman. Hann gegnir fullu starfi samhliða sínum rithöfundaferli en hann er ekkert viss um að hann myndi skrifa meira ef hann væri í því eingöngu.visir/vilhelm Ari Þór er ekki mjög afgerandi persóna og lesandann (þennan sem hér skrifar í það minnsta) langar stundum að stugga við honum. Sem á einhvern undarlegan hátt setur kraft í frásögnina. Ragnar segir Ara vera andlagið við þekktar glæpasagnapersónur svo sem úr Wallander; miðaldra og drukknir. Hann komi úr gagnstæðri átt, náunginn í næsta húsi, ofurvenjulegur strákur. Blússandi sigling utan landsteina Velgengnin utan landsteina hefur ekki látið á sér standa. Ragnar náði nýverið toppi metsölulista Der Spiegel í Þýskalandi. Honum hefur gengið vel í Frakklandi og Svíþjóð en bækur hans hafa ekki enn komið út í Finnalandi, Danmörku og Noregi. Það verður á næsta ári. „Við vorum að selja bókarétt til Noregs og Rússlands um síðustu helgi. Skandinavía, ég á eftir að upplifa það en tikka í öll önnur box. Bækur mínar hafa komið út í mörg ár í Bandaríkjunum og það hefur gengið mjög vel.“ Einhverju sinni heyrði ég það sagt að ef menn næðu að brjóta undir sig Bandaríkin væri björninn unninn. Það væri fyrirheitna landið? „Já, en bóksalan þar hefur ekki verið á sama skala og í Þýskaland og Frakklandi. Enn eru tækifæri í Bandaríkjunum, en þau eru miklu erfiðari hvað varðar þýddar bækur; þær ná ekki eins mikilli sölu þar.“ En hvað er það sem virkar svona vel á Þjóðverja og Frakka? „Ísland og umhverfið. Sem hefur lengi heillað Þjóðverja. Það er jafnan fyrsta landið sem íslenskar bækur koma út í. Þar lesa menn mikið af þýddum bókum. Að einhverju leyti gildir það sama um Frakkland. Þeir virðast opnir. Til dæmis með Dimmu, sem ég nefndi fyrr, þar eru brotnar nokkrar reglur í glæpasagnagerð. En virðist ganga vel í Þjóðverja og Frakka. Sem er mjög gaman, að lesendur kunni að vel að meta það að bækur fari aðeins út fyrir kassann. Ég er sérlega ánægður með að þannig bækur gangi vel, þar sem maður tekur áhættu. Auðveldar að skrifa inn í formúlu. Í einu landi, sem ég ætla ekki að segja hvað var, vildi útgefandinn breyta endinum. Láta þetta enda vel. En ég stoppaði það,“ segir Ragnar og ljóst að honum þótti þar heldur sneiðast af um hvað höfundar hafi að segja um eigin verk. Persónusköpunin ræður úrslitum En þá er komið að því sem óhjákvæmilegt er að bera undir Ragnar sem er að deildar meiningar eru um bókmenntalegt gildi glæpasögunnar. Um vinsældir þeirrar bókmenntagreinar þarf ekki að deila en því hefur verið fleygt að þetta séu formúlubækur, nánast eins og að mála mynd eftir númerum. Ragnar er á öðru máli. „Mér finnst mikið varið í vel heppnaða glæpasögu. En þær eru eins misjafnar og fjöldi þeirra sem eru að skrifa þær. Formúlubækur og ekki formúlubækur, það getur í sjálfu sér átt við um hvaða bókmenntagrein sem er. Fátt er skemmtilegra að lesa en góða glæpasögu. Margar af bestu bókmenntum sem við þekkjum, sem þá eru ekki flokkaðar sem glæpasögur, eru með glæp í bakgrunninum. Þetta knýr góða sögu áfram. Glæpur er eins og hvert annað tæki sem rithöfundur notar til að búa til sögu, framvindu og að sagan sé um eitthvað; alvarleg átök.“ Glæpasögur með snjallri fléttu eru ómetanlegar en þó er það ekki atriðið sem gerir góða glæpasögu góða, að mati Ragnars. Það er persónusköpunin. „Ef karakterarnir eru flatir virkar bókin ekki. Þú þarft að tengja við persónur, og þú ert alltaf að skrifa um fólk. Og hvernig það bregst við aðstæðum, harmleik. Og svo virðist vera að bókin nái til fleiri ef hún er titluð glæpasaga. En bókin ætti ekki að dæmast fyrir fram út frá því. Þó einhver útgefandi hafi ákveðið að kalla þær það. Ég bara skrifa bækur.“ Lærisveinn P.D. James og Agöthu En er ekki svo að í glæpasögu þá er áherslan á plottið, persónusköpunin er í öðru sæti? „Nei, ekki finnst mér það. Plottið þarf vissulega að virka og þú ert svikinn sem lesandi ef þú lest glæpasögu og plottið gengur ekki upp. En eins og til dæmis P.D. James, en ég kynntist henni áður en hún dó – hún er einn af mínum uppáhalds rithöfundum – segir: að vel skrifuð leynilögreglusaga geti geti flokkast sem góð hefðbundin skáldsaga og tvímælalaust verið jafn mikilvæg. Ragnar Jónasson náði að kynnast einni af drottningum glæpasagnanna, sjálfri P.D. James, áður en hún lést. Hann segir hana hafa verið einstaklega viðkunnanlega og sannarlega fyrirmynd hvað sig varði.visir/vilhelm Bækur hennar eru skemmtilega strúktúeraðar en þetta var samt alltaf um fólkið, saga einhvers manns eða persóna sem eru að takast á við eitthvað. Hún orðaði það svo við mig að glæpasagan væri tæki til að skoða mannlífið og hvernig fólk bregst við slíkum atburðum. Já, hún er í miklu uppáhaldi hjá mér.“ Ragnar fór og hitti P.D. James árið 2010, ári eftir að hann sendi sjálfur frá sér sína fyrstu bók og gott betur; skrifaði við hana viðtal sem birtist í Morgunblaðinu. „Bækur hennar þykja einstök blanda af sakamálasögum og dramatískum skáldsögum, enda er hún margverðlaunuð fyrir verk sín.“ segir þar en P.D. James stóð þá á níræðu. Íslendingar þekkja líklega best bækur hennar um Dagliesh lögregluforingja en gerðir voru sjónvarpsþættir upp úr þeim. Þá hafa bækur eftir P.D. James verið þýddar á íslensku. Ragnar er þannig af enska skólanum í glæpasagnagerð sinni, þeim sem kenndur er við mistery eða ráðgátusögur. Áður en Ragnar fór að skrifa sjálfur þýddi hann sögur Agöthu Christie. „Ég lærði hjá Agöthu. Hún er frábær og eldist vel. Agatha Christie er mun dekkri en menn halda en söguflétturnar eru auðvitað frábærar. Erfitt að toppa þær, hvernig hún nær að leika á lesandann með einföldum hætti en frábærum, þegar þú veist svarið. Eitt orð eða ein setning sem snýr svo öllu á haus. Hún er hin fullkomna hugmynd um glæpasögu, maður er alltaf að reyna að ná henni. Og P.D. James. Ég er að reyna að ná þeim.“ Ian Rankin og Dan Brown og þeir félagarnir Ragnar á að kunningjum og vinum ýmsa heimsþekkta rithöfunda, P.D. James segir Ragnar að hafi verið einstaklega yndislega og áhugaverða manneskju, sem náði að setja glæpasöguna í annað samhengi. „Já, Ian Rankin og Dan Brown, það er gaman að þekkja svona góða menn,“ segir Ragnar þegar blaðamaður forvitnast um frægðarinnar fólkið sem hann á í reglulegum samskiptum við. Ragnar segir að þetta sé þannig til komið að hann og Yrsa fari mikið út fyrir landsteinana saman. „Hún var dugleg að kynna mig fyrir þessum hátíðum, draga mig til útlanda til að kynna bækurnar. Ég mætti oft á bókahátíðir með engar bækur, bara þá von að einhver myndi taka eftir mér, það tókst að lokum.“ En nú hafa spennusögurnar einokað bóksölulistana í um kvartöld, er ekki hætt við að þær séu að taka frá því sem við köllum fagurbókmenntir? „Nei, ég held að allt þetta hjálpi hvert öðru. Vonandi er þetta ekki ein kaka sem menn taka sér sneið af og svo klárast hún. Þeim mun fleiri bækur sem Íslendingar selja erlendis þeim mun fleiri dyr opnast fyrir aðra höfunda, sem er svo lykillinn að geta lifað af þessu.“ Bóksölulistarnir skipta máli Tólf spennusögur á rúmum áratug. Þú hefur fengist við smásagnagerð og það að semja ljóð. Hefur einhvern tíma flökrað að þér að reyna þig við skáldsagnagerð, þá af því taginu sem myndi flokkast sem fagurbókmenntir? „Jájá, það hefur alveg hvarflað að mér og ég var með eina slíka hugmynd í kollinum fyrir nokkrum árum, sem ekki er komin á blað. En ég kannski fæ útrás fyrir slíkan skáldskap í smásögum og ljóðum. Ennþá. Málið er að ég hef svo gaman að lesa og skrifa glæpasögur. Helsta áhugamál mitt er að finna góða glæpasögu. Ragnar Jónasson segir að frekar um að ræða samkeppni milli útgefenda en höfunda hvað varðar sæti á bóksölulistum.visir/vilhelm Það gefur mér svo mikið og meðan ég er með hugmyndir langar mig að koma þeim frá mér. Ég er með nokkrar góðar hugmyndir sem ég tími ekki að sleppa höndinni af. Þegar ég fæ ekki aðrar skrifa ég eitthvað annað og hef svo sem alveg gert. Þetta þróast einhvern veginn,“ segir Ragnar. Helst er á honum að skilja að hann telji ekki aðkallandi að sinna þessu tiltekna kalli. Helsti hasarinn í tengslum við jólabókaflóðið eru bóksölulistarnir. Eru þeir eitthvað sem þú horfir spenntur til, hlýtur það ekki að vera? „Þetta er góð spurning. Jú, en það tengist þá því kappsmáli að Íslendingar lesi bækurnar og hafi gaman að þeim. Skiptir kannski ekki öllu máli hvar á lista þær eru en ef maður fær góð viðbrögð, þá er það mikilvægast. Auðvitað gefa metsölulistarnir vísbendingar, en það getur gefið manni alveg jafn mikið að fá kveðju og að lesa einhvern metsölulista. En listarnir eru auðvitað staðfesting á því að fólk sé ánægt með þetta, og þá vill maður halda áfram að skrifa. Ég skrifa á íslensku fyrir Íslendinga, bækurnar eru skrifaðar inn í þennan heim sem maður býr í dagsdaglega.“ Slagurinn er milli útgefenda Ber svo að skilja að þetta sé ekki keppni milli ykkar höfundanna? Svo mikið er víst að útgefendurnir rýna sig rauðeyga þegar listarnir koma út og leggja mikið uppúr þeim? „Já, útgefendur kljást, eins og eðlilegt er. Það er bara heilbrigð samkeppni. En við Yrsa erum til dæmis mjög góðir vinir og höfum aldrei rifist um metsölulistana. Arnald þekki ég minna en af mjög góðu einu. Já, samkeppnin er meiri meðal útgefenda ef ég á að vera hreinskilinn.“ Sem Ragnar segir að sé ekkert annað en gaman. „Öll samkeppni stuðlar að því að menn skrifi meira, gefi meira út og fólk lesi meira sem er hið endanlega markmið. Tali um bækur og muni eftir þeim. Það er ekki sjálfgefið á Íslandi. Jólabókaflóðið er mikilvægt og viðheldur þessum markaði. Ef það væri ekki til staðar, þessi samkeppni fyrir jólin, værum við fátækari af titlum og höfundum.“
Höfundatal Bókaútgáfa Bókmenntir Fjallabyggð Mest lesið Pitt og Jolie loksins skilin Lífið Orri Steinn og Sylvía Rós eiga von á stúlku Lífið „Gæti stofnað nýjan stjórnmálaflokk og búið til podcast þátt“ Lífið Herra Hnetusmjör með stærsta lag ársins Tónlist Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Lífið Angus MacInnes er látinn Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Æskudraumurinn varð að veruleika Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Jólaboð Evu: Kalkúnabringur með öllu tilheyrandi Matur Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira