Fótbolti

Endur­koma hjá Guð­björgu, Kjartan sá rautt og stoð­sending frá Arnóri í Rúss­landi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Endurkoma hjá Guðbjörgu í dag.
Endurkoma hjá Guðbjörgu í dag. Eric Verhoeven/Soccrates

Guðbjörg Gunnarsdóttir var mætt aftur í markið hjá Djurgården í dag í sænska boltanum en Guðbjörg eignaðist tvíbura fyrr á árinu. Guðbjörg stóð í markinu því í fyrsta sinn á þessari leiktíð en hún hafði leikið fyrir U19-ára lið félagsins fyrr á leiktíðinni.

Djurgården tapaði 3-2 gegn Eskilstuna á heimavelli en Guðrún Arnardóttir stóð vaktina í vörn Djurgården sem er með tuttugu stig í tíunda sæti deildarinnar, stigi fyrir ofan fallsætið.

Ísak Bergmann Jóhannesson átti þátt í marki Norrköping í 2-1 tapi gegn Elfsborg á útivelli. Ísak spilaði allan leikinn fyrir Norrköping sem er í 4. sæti deildarinnar. Elfsborg er í öðru sætinu.

Glódís Perla Viggósdóttir spilaði allan leikinn fyrir Rosengård sem vann 5-1 sigur á Uppsala. Anna Rakel Pétursdóttir spilaði síðasta stundarfjórðunginn fyrir Uppsala sem er á botninum en Rosengård er í 2. sætinu.

Elísabet Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Kristinastads unnu 4-0 stórsigur á Vittsjö á heimavelli í dag. Svava Rós Guðmundsdóttir er á meiðslalistanum en Kristianstads er í 3. sæti deildainnar, sex stigum frá toppsætinu og tveimur stigum frá öðru sætinu.

OB vann sigur á Horsens í Íslendingaslag í danska boltanum í dag. Fyrsta og eina mark leiksins kom á ellefu mínútu er Emmanuel Sabbi skoraði sigurmark OB. Kjartan Henry Finnbogason fékk að líta rauða spjaldið á 55. mínútu eftir tæklingu. Atvikið var skoðað í VAR.

Aron Elís Þrándarson kom inn af bekknum hjá OB er 82 mínútur voru á klukkunni en Sveinn Aron Guðjohnsen var ekki með hjá OB. Ágúst Eðvald Hlynsson var ekki í leikmannahópi Horsens sem er á botninum með tvö stig. OB er í sjöunda sætinu með tíu stig.

Arnór Sigurðsson lagði upp sigurmark CSKA Moskvu er liðið vann 1-0 sigur á Volgograd í Rússlandi. Sigurmarkið kom fjórum mínútum fyrir leikhlé en Arnór var tekinn af velli á 70. mínútu. Hörður Björgvin Magnússon spilaði allan leikinn í vörninni en CSKA er á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×