Innlent

34 ein­staklingar sektaðir vegna brota á reglum um sótt­kví

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það eru lögregluembættin í landinu sem rannsaka og gefa út sektir vegna brota á reglum um sóttkví og einangrun. 
Það eru lögregluembættin í landinu sem rannsaka og gefa út sektir vegna brota á reglum um sóttkví og einangrun.  Vísir/Vilhelm

Mál 34 einstaklinga eru komin í sektarmeðferð vegna brota á reglum um sóttkví. Þá er mál eins einstaklings komið í sektarmeðferð vegna brota á reglum um einangrun og mál fimm einstaklinga eru enn til afgreiðslu. Tölurnar miðast við málaskrá lögreglu þann 30. október síðastliðinn.

Sektarmeðferð þýðir að mál hafi verið komið á það stig að í minnsta lagi hefur verið tekin ákvörðun um að gefa út sekt og sektin sjálf þá verið í vinnslu hjá lögreglu upp í að sekt hefur verið greidd af þeim sem braut af sér.

Í svari almannavarna við fyrirspurn fréttastofu um fjölda þeirra sem fengið hafa sekt vegna brota á einangrun eða sóttkví og hvernig sá fjöldi skiptist eftir lögregluumdæmum landsins segir að ekki sé hægt að birta slíkar tölur fyrir hvert embætti fyrir sig.

Tölurnar séu svo lágar að þær gætu verið persónurekjanlegar þar sem mjög fáir einstaklingar hafi farið í sóttkví og/eða einangrun á sumum svæðunum.

Af þeim 34 einstaklingum sem hafa fengið sekt vegna brota á einangrun voru tíu einstaklingar teknir á höfuðborgarsvæðinu og 26 á landsbyggðinni, þar af þrír í tveimur embættum.

Mál þrettán einstaklinga voru skráð í fyrri bylgju faraldursins og 21 einstaklings í þeirri bylgju sem nú gengur yfir.

Einn einstaklingur hefur fengið sekt eins og áður segir vegna brota á reglum um einangrun. Mál fimm einstaklinga eru enn til afgreiðslu en um er að ræða brot á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra er hægt að sekta fólk um allt að 250 þúsund krónur fyrir brot á sóttkví og allt að 500 þúsund krónur fyrir brot á einangrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×