Cloé Lacasse var á skotskónum með portúgalska liðinu SL Benfica í Meistaradeildinni í knattspyrnu í dag.
Cloé Zoé Eyja Lacasse, eins og hún heitir núna fullu nafni í bókum UEFA, skoraði annað mark Benfica í 3-1 útisigir á PAOK frá Grikklandi.
Á úrslitasíðu UEFA er nafn hennar stytt og þar má sjá að Eyja Lacasse hafi skorað fyrir Benfiva á 44. mínútu sem er örugglega skemmtileg sjón fyrir Eyjamenn sem telja sig örugglega eiga svolítið í henni.

Cloé Lacasse skoraði markið sitt rétt fyrir hálfleik og kom Benfica þar með í 2-0 eða í lykilstöðu í leiknum. PAOK minnkaði muninn á 57. mínútu en aðeins fjórum mínútum síðar innsiglaði Catarina Amado 3-1 sigur.
Benfica er þar með komið áfram í aðra umferð forkeppni Meistaradeildar kvenna.
Cloé Lacasse fékk íslenskt ríkisfang í júní 2019 og tók þar upp Eyju nafnið til heiðurs Vestmannaeyjum þar sem hún spilaði með ÍBV liðinu frá 2015 til 2019.
Cloé Lacasse skoraði 54 mörk í 79 leikjum fyrir ÍBV í efstu deild á Íslandi og hefur skorað 32 mörk í fyrstu 26 deildarleikjum sínum með Benfica.
Leikurinn í dag var aftur á móti fyrsti leikur Cloé í Meistaradeildinni.