Innlent

Líkamsárás í austurbæ Reykjavíkur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan hefur haft í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hefur haft í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Klukkan 20:43 var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt um líkamsárás í heimahúsi í austurbæ Reykjavíkur. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Að sögn lögreglunnar var einn handtekinn og færður á lögreglustöð en honum sleppt nokkru síðar, í kjölfar yfirheyrslu og húsleitar.

Upp úr klukkan sjö í gærkvöldi barst þá um tvo menn sem voru að ryðjast inn á heimili í Urriðaholti. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Mennirnir eru sagðir taldir hafa beitt piparúða, en þeir voru flúnir af vettvangi þegar lögregluna bara að garði.

Þá þurfti lögreglan að sinna þó nokkrum hávaðaútköllum. Í einu þeirra þurfti lögregla að fá húsráðanda til að fækka í hópi gesta, svo framfylgja mætti fjöldatakmörkunum.

Í öðru tilviki neitaði maður að gera grein fyrir nafni sínu, „þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir og sénsa,“ eins og það er orðað í dagbók lögreglu. Hann var að endingu handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann „loksins vitkaðist þegar hann sá fram á dvöl í fangaklefa.“

Þá hafði lögreglan afskipti af nokkrum ökumönnum vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna eða áfengis, auk þess sem fjórum málum þar sem grunur var um heimilisofbeldi var sinnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×