Innlent

Skýrsla um hópsmitið á Landakoti væntanleg í fyrsta lagi í lok vikunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á upplýsingafundi á dögunum.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á upplýsingafundi á dögunum. Vísir/Sigurjón

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að athugun á tildrögum og þróun hópsmitsins á Landakoti gangi vel.

Athugunin hafi hins vegar viðameiri og flóknari en búist var við. Hann býst við í fyrsta lagi verði hægt að kynna niðurstöður skýrslu um hópsmitið í lok þessarar viku.

Þetta kom fram í máli Páls á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis vegna kórónuveirufaraldursins í dag.

„Við virðumst komin fyrir þetta hópsmit sem er vel. Skýrsla vegna hópsmitsins er tilbúin í drögum. Við munum nú rýna hana varðandi aðferðafræði með almannavörnum og síðan kynna hana embætti landlæknis,“ sagði Páll. Í raun væri um að ræða skriflega eftirfylgni vegna upphaflegrar tilkynningar spítalans til landlæknis.

„Í kjölfarið mun skýrari mynd liggja fyrir og verður það þá kynnt starfsmönnum og svo almenningi en ég á von á að það geti í fyrsta lagi orðið í lok vikunnar,“ sagði Páll.

Hann sagði að þótt að staðan á spítalanum væri enn þung þá gengi flæði sjúklinga samt vel.

Kvaðst Páll búast við því að senda bréf til landlæknis eftir hádegi þar sem kæmi fram að aðstæður á spítalanum séu ekki lengur þannig að ástæða sé til að halda áfram banni við valkvæðum aðgerðum.

Þá sagðist Páll eiga von á því að spítalinn myndi fara af neyðarstigi og á hættustig í fyrri hluta þessarar viku.

Framsögu hans á fundinum í dag má sjá í heild sinni í spilaranum  hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×