Fótbolti

Axel Óskar inn fyrir Ísak Óla | Ekki leikið í Armeníu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Axel Óskar hefur verið kallaður inn í íslenska U21 árs hópinn fyrir komandi leiki.
Axel Óskar hefur verið kallaður inn í íslenska U21 árs hópinn fyrir komandi leiki. Vísir/Vilhelm

Miðvörðurinn Axel Óskar Andrésson hefur verið kallaður inn í U21 árs landslið Íslands sem mætir Ítalíu, Írlandi og Armeníu í leikjum sem skera úr um hvort liðið á möguleika á að komast á Evrópumótið sem fram fer næsta sumar

Axel Óskar leikur með norska úrvalsdeildarliðinu Viking. Kemur hann inn í hópinn fyrir Ísak Óla Ólafsson, varnarmann SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni.

Ísland mætir Ítalíu á fimmtudaginn kemur, 12. nóvember en Ísak Óli á leik með félagi sínu á miðvikudeginum og nær því ekki leiknum gegn Ítalíu. Hann verður hins vegar klár í leikina gegn Írlandi og Armeníu sem fram fara þann 15. og 18. nóvember.

Axel Óskar hefur alls leikið 18 leiki fyrir U21 árs landslið Íslands. Þá á hann að baki 46 yngri landsleiki og tvo A-landsleiki. 

Vegna aðstæðna í Armeníu hefur leikurinn verið færður til Kýpur. Fer hann fram á Antonis Papadopoulos-vellinum.

Ísland er sem stendur í 4. sæti undankeppninnar með 15 stig, líkt og Svíþjóð. Ísland á hins vegar leik til góða á bæði Svíþjóð og Írland sem eru þar fyrir ofan. Sá leikur er nú á fimmtudaginn er Ítalía mætir á Víkingsvöll. Sigur þar kæmi íslenska liðinu í einkar góða stöðu. Liðið sem vinnur riðilinn fer beint á Evrópumótið á meðan 2. sætið fer í umspil.

Leikur Íslands og Ítalíu verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Hefst útsendingin klukkan 13.00 en leikurinn sjálfur klukkan 13.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×