Samkomubann tók gildi um allt land nú á miðnætti og verður við lýði næstu fjórar vikur. Er því ætlað að hamla frekari útbreiðslu kórónuveirunnar í íslensku samfélagi.
Bannið tekur til skipulagðra viðburða þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Þetta á til dæmis við um tónleika, ráðstefnur, skemmtanir, íþróttaviðburði og kirkjuathafnir. Sömuleiðis þurfa allir aðrir staðir – svo sem verslanir, líkamsræktarstöðvar, vinnustaðir og veitingastaðir – að tryggja að ekki séu fleiri en 100 manns inni í sama rými á hverjum tíma.
Í Reykjavík og víðar eru grunn- og leikskólar lokaðir í dag þar sem stjórnendur og kennarar munu leggja á ráðin hvernig skólahaldi skuli háttað næstu vikurnar.
Vísir mun að sjálfsögðu flytja nýjustu fréttir af útbreiðslu veirunnar og áhrifunum sem hún hefur á íslenskt samfélag og úti í heimi. Hægt er að fylgjast með nýjustu tíðindum í vaktinni að neðan.