Farið var yfir varnarleik Íslands gegn Litáen í síðasta þætti Seinni bylgjunnar. Ísland vann öruggan 16 marka sigur fyrir tómri Laugardalshöll, lokatölur 36-20.
Arnar Freyr Arnarsson, leikmaður Melsungen í Þýskalandi og Ýmir Örn Gíslason, leikmaður Kiel, voru sérstaklega til umræðu í þættinum. Ásamt Henry Birgi Gunnarssyni, þáttastjórnanda, voru þeir Rúnar Sigtryggsson og Theodór Ingi Pálmason að þessu sinni.
Innslagið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
„Þeir sem stóðu fyrir miðju varnarinnar voru ungu varnarlínumennirnir okkar, þeir Arnar Freyr og Ýmir Örn, voru þeir mjög öflugir,“ sagði Henry Birgir áður en Rúnar tók við.
„Þeir gerðu þetta mjög vel. Litáen komst aldrei á bragðið, fengu aldrei snefil. Voru teknir framarlega og hugmyndafræði á móti þeim [Arnari og Ými] var ekki mikil. Þú spilar ekki betur en andstæðingurinn leyfir og við leyfðum þeim ekki neitt meira.“
Teddi Ponza tók undir með Henry að Ýmir væri orðinn skynsamari í vörninni.
„Hvernig hann spilaði þennan leik, staðsetningar og tímasetningar. Maður var að horfa á leikinn og hugaði eftir fimmtán mínútur að hann er hættur þessum heimskulegum brotum en svo kom eitt í kjölfarið, það hefur samt klárlega minnkað. Hann er fastur fyrir, var að mæta vel og stöðva sóknir í fæðingu. Miðað við þetta hefur hann tekið miklum framförum í Þýskalandi enda er hann að spila helling þar“ sagði Theodór Ingi.
„Í byrjun átti hann margar fastar tæklingar án þess að fá tvær mínútur og það skiptir miklu máli. Þetta er þroskamerki. Hann er að spila í toppliði og það sem hefur vantað, nú erum við með stráka sem eru að spila með Magdeburg, Melsungen og Rhein-Neckar Löwen, við eigum að gera kröfur núna, “ bætti Rúnar við að lokum.