Skoðun

Hver er þín mál­stefna?

Ármann Jakobsson og Eva María Jónsdóttir skrifa

Dagur íslenskrar tungu er aðeins einu sinni á ári en þennan dag fögnum við málinu og öllum dögunum sem við eigum það og þökkum fyrir að eiga móðurmál sem er fallegt, margslungið og einkar nytsamlegt. Markmiðið á að vera að geta notað málið í öllum aðstæðum og á öllum sviðum samfélagsins. Íslenskan þrífst best ef hún er mikið notuð og af áhuga. Hvert og eitt okkar getur hugleitt hvaða málstefnu við fylgjum í daglegu lífi og spurt okkur sjálf þessara og fleiri spurninga:

Hvernig íslensku reynum við að tala?

Hugsum við um hvernig er best að orða hlutina?

Óttumst við að tjá okkur á móðurmálinu? Finnst okkur það stundum kjánalegt?

Leitum við nýrra orða yfir ný fyrirbæri?

Erum við dugleg að leita upplýsinga um málið t.d. á netinu?

Slettum við orðum úr öðrum tungumálum? Hvers vegna?

Tjáum við okkur á íslensku þegar við skrifum t.d. færslur á samfélagsmiðla?

Svörum við á ensku ef við erum ávörpuð með hreim eða höldum að við séum að tala við útlending?

Reynum við að tala um ólík málefni við börn og ungmenni?

Hvetjum við aðra til að tjá sig á íslensku, meðal annars með því að gera það sjálf?

Tölum við fyrst og fremst um tunguna með því að leiðrétta villur annarra?

Lesum við margs konar texta á íslensku?

Horfum við á myndefni á íslensku eða með íslenskum texta?

Á hvaða sviðum notum við síst íslenskt mál? Mætti breyta því?

Svör við ofangreindum spurningum getur hver og einn átt fyrir sig. En þegar við leiðum hugann eitt andartak að afstöðu okkar til málsins styrkjum við tengslin við það og um leið stöðu þess í samfélaginu. Dagur íslenskrar tungu hentar prýðisvel til þess.

Höfundar eru formaður og varaformaður Íslenskrar málnefndar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×